Við viljum flest reyna að lifa aðeins heilbrigðari lísstíl en vitum kannski ekki alveg hvernig á að byrja.
Ég tala líklega fyrir fleiri en sjálfa mig þegar ég segist þekkja býsna vel hversu erfitt það er að venja sig af óhollustu sem er orðin að föstu ritúali í dagskránni hvern dag. Tala nú ekki um ef við ætlum okkur allt of mikið í einu, eins og má oft verða! Það er miklu meira en að segja það að ætla á einu bretti að henda bara út öllum ósiðum sem við höfum vanið okkur á.
Í staðinn er miklu vænlegra til árangurs að reyna að taka nokkra hluti fyrir og vinna kerfisbundið að því að bæta þá, í staðinn fyrir að reyna að vakna sem ný og gallalaus manneskja einn morguninn.
Hér eru nokkrar gamlar og góðar en ofureinfaldar hugmyndir að því að gera daginn í dag aðeins hollari en í gær.
1. Drekktu meira vatn
Kannski finnst þér þetta vera algjör klisja – en ástæðan fyrir því það er endalaust hjakkast á þessu er að þetta er algjörlega satt! Líkaminn þarf mikið vatn til þess að starfa eftir bestu getu og flestir eru líklega ekki að drekka nóg vatn yfir daginn. Það er mjög einfalt að venja sig á að drekka meira vatn; passaðu að vera alltaf með vatnsflösku á þér og ef þú ert gleymin/n geturðu stillt símann á að hringja á þig á klukkutíma fresti til að minna þig á fá þér nokkra svalandi sopa.
2. Farðu fyrr að sofa
Svefninn er rosalega kröftugur og lífsnauðsynlegur, enda getur maðurinn ekki lifað lengi án hans! Rannsóknir hafa líka fundið tengsl milli svefnskorts og aukinnar streitu, meiri matarlystar og þyngdaraukningar, allt þetta neikvæða sem engin nútímamanneskja vill. Gerðu þér stóran greiða, slökktu á tölvunni aðeins fyrr og skelltu þér í háttinn fyrir miðnætti. Kroppurinn mun launa þér.
3. Borðaðu reglulega
Önnur „klisja“ sem stendur alveg fyrir sínu. Haltu blóðsykrinum á góðu róli í gullna meðalveginum með því að borða hollan og góðan mat reglulega yfir daginn. Þá þarftu ekki að leita í næringarsnautt skyndisnakk til að ná upp blóðsykrinum.
4. Labbaðu oftar
Leggðu í stæði lengra frá vinnunni, skólanum eða ræktinni og röltu aðeins. Farðu stigana í staðinn fyrir lyftuna. Prófaðu líka að rölta bara í staðinn fyrir að vera á bílnum! (það er líka hægt að labba í strætó). Ef þér finnst svo alveg virkilega leiðinlegt að labba geturðu skellt þér á hjól og fengið brjálað góða æfingu sem kostar ekkert (nema svita og tár kannski).
5. Ekki drekka hitaeiningarnar þínar
Drykkir eins og gos og safar eru uppfullir af allskyns dóti og má þar helst nefna hitaeiningarnar sem þeim fylgja. Oft geta drykkir jafnvel verið jafn hitaeiningaríkir og máltíðin sem þú ert að fá þér, þannig að þú ert strax búin að tvöfalda kaloríuinntöku máltíðarinnar með drykknum! Annað slæmt við svona drykki er sykurmagnið sem er í þeim. Sykurinn er næringarsnauður, líkaminn græðir ekkert á honum og hann ætti að forðast eins mikið og hægt er. Tala svo ekki um allt annað aukadrasl sem leynist í sykursúpunni í ofanálag! Þú ert í miklu betri málum með því að halda þig bara við gamla góða vatnið.
6. Borðaðu meira af grænmeti og ávöxtum
Samkvæmt landlækni ættu Íslendingar að borða að lágmarki 500gr af grænmeti og ávöxtum á hverjum degi. Grænmeti og ávextir eru trefjaríkur matur sem gerir það að verkum að við höldumst lengur södd milli máltíða. Þessvegna ættu allir að hlusta á landlækninn góða!
7. Brostu til annarra, líttu á björtu hliðarnar
Neikvæðni fer illa með sálina, veldur streitu og styttir örugglega lífið, ef ekki það þá dimmir hún að minnsta kosti hversdaginn og það viljum við alls ekki. Góð vísa er síðan aldrei of oft kveðin; what goes around comes around! Sýndu öðrum þessvegna kurteisi, virðingu og jákvæðni og brostu mikið.
Þú gerir þér og öðrum mikinn greiða, færð það margfalt til baka og um leið verður dagurinn skemmtilegri!
Sveindís Þórhallsdóttir útskrifaðist í vor með BS gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands en býr nú í fallegum bæ á Finnlandi þar sem hún leggur stund á mastersnám í íþrótta- og æfingasálfræði. Sveindís er jafnframt einkaþjálfari, heldur úti fjarþjálfun á vefsíðu sinni og hefur mikinn áhuga á hvers kyns hreyfingu og heilbrigði.
Pole fitness á hug hennar allan og fríkvöldunum er oftar en ekki varið í að teygja fyrir framan sjónvarpið. Hún á eitt stykki frábæran kærasta og dreymir um að bæta kisu á heimilið.