Flestar ef ekki allar konur munu á einhverjum tímapunkti finna fyrir óþægindum á meðan mánaðarlegum blæðingum stendur.
Já eða… “óþægindum” Við vitum allar að þetta er aðeins meira en óþægindi.
Ef það flokkast að líða eins og sjötíu flóðhestar í yfirþyngd hafi notað legið þitt sem trampólín sem óþægindi þá já, ég get vottað fyrir það – sérlega óþægilegt í alla staði.
Einhverjar munu kinka kolli og vera mér sammála, aðrar sem eru mögulega harðari af sér munu tauta og jafnvel munu orð eins og aumingjaskapur falla í minn garð.
Gott og vel, ég upplifi sjálfa mig sem fórnarlamb en ég er ekki ein. Samkvæmt CIA eru um það bil 3,523,843,881 konur í heiminum. Það eru ansi margri túrverkir, höfuðverkir, magaverkir, vindverkir og (súkkulaði-) hungurverkir.
Ég er því ekki einsömul um þessi óþægindi sem stundum er ósköp smávægileg en svo koma líka augnablik þar sem mig grunar að það sé verið að refsa mér fyrir báðar heimstyrjaldirnar. Ég hef staðið í röð í mötuneyti og velti fyrir mér hvort væri hlutfallslega minna vandræðalegra ef það myndi líða yfir mig af verkjum ofan í tælensku fiskisúpuna með þrjátíu manns í biðröð fyrir aftan mig eða að dömubindaflotinn minn myndi gefast upp fyrir Tsunami-blóðbylgjunni áður en ég næði að hlaupa á næsta baðherbergi. Stundum er skvíz á milli steins og sleggju.
Þar sem að ég upplifi mig sem blöndu af Móðir Theresu, Opruh Winfrey og Shakiru (jú víst!) þá hef ég tekið saman nokkur góð ráð við óþægindum sem fylgja Rósu frænku og öllu hennar hafurtaski.
1. Hreyfðu þig!
Já ég veit þú vilt það ekki, enda eru Gullfoss og Geysir í hæfileikakeppni í nærbuxunum þínum en þetta slær á verkina. Farðu út að skokka, gerðu æfingar heima eða farðu í ræktina. Mögulega betra að forðast tíma eins og Hot Yoga en ef það virkar fyrir þig, namaste alla leið!
2. Borðaðu rétt
Nú fara einhverjar í fýlu, eðlilegast væri að láta allt eftir sér í þessu ömurlega ástandi (lesist: Ryksuga upp Nammilandið og urra á smábarnið sem ætlaði að voga sér að taka seinasta Oreo-kexpakkann, fjandans krakkar). Nei, það gildir að borða hollt og í hófi. Líka súkkulaði.
3. Kynlíf
Þú ert mögulega í lágmarks stuði, eðlilega. Það er hinsvegar alvitað að fullnæging veldur mikilli vellíðan og um líkamann streyma allskonar gleðiefni. Á þessum tímapunkti þurfum við svo sannarlega á smá gleðiefni á að halda. Svo plataðu sjálfa þig í stuð og græjaðu fullnægingu, þér mun líða betur.
4. Búbblubað
Ég geri ráð fyrir að fólk þvoi sér dagsdaglega en að liggja í heitu vatni eða standa í sturtunni og láta sturtuhausinn buna heitu vatni á kviðinn er dýrmætt ráð til að senda túrverkina í frímínútur. Svo hverfur þessi bandsetta lykt sem fylgir þessu mánaðarlega leg- og eggjastokkafestivali. Umrædd lykt er af dömubindum og túrtöppum, hana þekkja flestar konur. Lyktinni er best lýst sem sjúkrahúsalykt samblönduð með sykursætu ilmvatni og dassi af majónesi, s.s. frekar ógeðfellt.
5. Pillur og aftur pillur
Ef tíðarverkirnir eru svo óbærilegir að þú myndir frekar taka að þér að synda í holræsi án sundgleraugna frekar en að þola enn einn “túrinn” þá legg ég til að þú leitir til læknis og farir jafnvel á getnaðarvarnarpilluna. Að öðru leiti eru verkjalyf það besta sem Guð gaf okkur fyrir utan kannski Camembert-ost. Farðu í apótek og linaðu þjáningarnar.
Að lokum er vert að minna á að við förum á blæðingar til að geta eignast börn og allt það, sérlega göfugt.
Eðlilegast væri að heiðra allar konur landsin með Fálkaorðunni fyrir sitt framlag til þjóðarinnar, annars væri íslendingurinn útdauður, rétt eins og Dodo fuglinn blessaður. Fálkaorðan hefur vissulega verið veitt fyrir ómerkilegri afrek.
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.