Þá er komið að því! Janúar er runnin upp og allir og afar þeirra eru að ‘taka sig í gegn’.
Sjálf tók ég forskot á sæluna og byrjaði að æfa eftir klassíska ‘pásu’ á Þorláksmessu. Hef svo skotið mér í ræktina nær daglega þegar það hefur verið opið yfir hátíðarnar því nú er þetta tekið með fullu janúar trompi og ötulli safadrykkju að auki. Segi ekki að ég sé á safaföstu samt en bráðlega koma tveir til þrír dagar þar sem fæðan mín verður bara safar og ekkert annað. Mjög hreinsandi og (kven)maður fær flatan og fagran kvið.
Það er þó ekki eins og það sé hlaupið að þessu. Að djúsa sig upp og ‘hreinsa’ krefst skipulags og að maður kaupi rétt inn, muni að taka vítamínin og sé svolítið með þetta allt undir kontról. Hér eru fimm heilræði sem ég hef lært í gegnum mína safatíð en ég hef nokkrum sinnum fastað og mæli með þessu fyrir alla sem hafa góða heilsu og þjást ekki af átröskunar eða öðrum sjúkdómum.
1. Veldu safa-plan sem hentar þér vel. Það eru til allskonar safaföstur svo þú þarft að finna út hvað hentar þér best. Ef þú ert á fullu allann daginn og hefur ekki tíma til að gera þína eigin þá er hægt að fá safa frá Biotta eða koma við á Boozt barnum og fá þau til að blanda eitthvað gott. Einnig er hægt að fá mjög góða ferska safa sem eru blandaðir á staðnum í Heilsuhúsinu og hjá Hreyfingu. Bara spurning hvar þú ert stödd og hvort það er flókið að renna við.
2. Sjá, – þetta er ekki skyndilausn! Að fasta með safadrykkju er ekki skyndilausn og það þarf ekkert að vera að þú grennist neitt á þessu. Kannski, kannski ekki? Líklegast missir líkaminn uppsafnaðan vökva en auðvitað bætum við svo aðeins á okkur aftur þegar við byrjum að borða ‘venjulega’. Hinsvegar ertu að gera líkamanum gott með þessu, hann fær að ‘núllstilla’ sig og endurræsa og eftir svona föstu langar þig bara ekkert sérstaklega í KFC, kúlupoka og kók. Þú heldur áfram að borða hollt, og líklegast missir kíló sem veltur þó einnig á hvað þú varst að gera áður.
3. Best er að byrja detoxið nokkrum dögum áður en þú hefst handa við safadrykkju. Hefurðu heyrt um manninn sem mætti á sautján sortum af eiturlyfjum og ofurölvi á Vog? Einmitt. Þó þú sért að byrja föstu á morgun er ekkert vit í því að háma í sig pizzu og hamborgara í dag. Þú þarft að gera þetta af heilum hug. Best er að byrja á að henda út kaffi, sykri, kjöti og mjólkurvörum tveimur til þremur dögum fyrir föstu. Svo máttu fasta í tvo daga og taka svo restina hægt og rólega inn aftur. HÉR eru mjög fínar leiðbeiningar. Því betur sem þú planar og undirbýrð föstuna því betri verður útkoman og líðan þín.
4. Veldu drykki sem þér finnast bragðgóðir. Það er ekkert vit í að pína ofan í sig einhvern viðbjóð. Veldu drykki sem þú fílar. Prófaðu þig áfram áður en þú ferð bara í safana. Sjálf elska ég bláber og á marga poka af því inni í frysti síðan skroppið var í Borgarfjörðinn. Bananar, appelsínur, epli, spínat (keypt ferskt og sett í frysti), engifer etc… möguleikarnir eru óþrjótandi og þú færð uppskriftir bæði á netinu, á bókasafninu og í bókabúðum.
5. Fyrsti dagurinn er erfiðastur. Það er allt erfitt sem maður er að gera í fyrsta skipti og safa fastan er engin undantekning. Þá er fyrsti dagurinn stundum svolítið erfiður. Líklegast er best að gera þetta bara yfir helgi. Þá geturðu slakað á ef þér finnst þetta erfitt og lagt þig bara. Svo kemur næsti dagur og þú finnur muninn á líkamanum og hvað þetta gerir manni gott.
Hér er uppskrift að einum grænum og góðum frá Guðbjörgu Finns íþróttaþjálfara hjá G-Fit en hún er mikill snillingur í safagerð og fer ekki í gegnum einn einasta dag án þess að drekka góðan heimagerðan safa.
Grænn morgundrykkur
2 bolli rísmjólk/möndlumjólk
1 lítill hnefi af kókósflögum
1 stór hnefi af spínatblöðum
1/2 avókadó
1/2 grænt epli
nokkur fersk piparmyntublöð
1/2 msk. græn súperfæða (t.d. Green Turbo frá Gillian)
Allt sett í blandara nema avókadóið sem er sett í síðast í eina sek.
Gangi þér vel!
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.