Magnesíum er eitt mikilvægasta steinefnið sem líkaminn notar og þarfnast. Of lágt magn af magnesíum hefur verið tengt við fjöldan allan af sjúkdómum og einkennum í líkamanum en samt hefur mikilvægi þessa steinefnis farið framhjá mörgum.
Ég tók saman nokkur einkenni á magnesíumskorti. Ef þú þjáist af einhverjum af þessum einkennum gæti magnesíum verið svarið fyrir þig.
1. Vöðvakrampar
Ef þú færð oft krampa í vöðvana getur það þýtt að þig vanti magnesíum. Vöðvarnir þurfa að hafa jafnvægi kalks og magnesíum í líkamanum til að geta starfað rétt. Ef það er ekki nóg magnesíum fyrir vöðvana gerir kalkið það að verkum að þeir herpast saman.
2. Óreglulegur hjartsláttur
Hjartað er sá vöðvi í líkamanum sem notar hvað mest magnesíum. Ef, eins og segir hér að ofan, það er mikið magn af kalki í líkamanum, en ekki nægt magnesíum, getur hjartað ekki starfað rétt. Skortur á magnesíum hefur því verið tengdur við hjartaáföll.
3. Of hár blóðþrýstingur
Magnesíum hjálpar til við að lækka blóðþrýsting. Með hjálp vítamín K2 getur magnesíum komið jafnvægi á blóðþrýstinginn.
4. Beinþynning
Þar sem konur eru í áhættuhópi með að þjást af beinþynningu er það góð ástæða fyrir okkur til að taka inn magnesíum. Við vitum að kalk og D vítamín hjálpa til við að halda beinunum sterkum en ekki allir vita að magnesíum er jafn stór þáttur í þessum kokteil. Magnesíum vinnur hér aftur með kalkinu og þarf að vera jafnvægi á milli vítamínanna D og K til að allt vinni sem best.
5. Stress
Þegar þú ert stressuð eyðir líkaminn magnesíum því magnesíum hjálpar virkni nýrnahettanna. Þær reyna að halda þér frá þunglyndi og kvíða og reyna að slaka á vöðvunun. Þannig eyðist magnesíum hratt upp þegar þú ert uppspennt og stressuð. Þetta þrengir einnig æðarnar og þannig hækkar blóðþrýstingurinn.
Ég er einungis áhugamanneskja og ráðlegg þér því að spyrja lækninn þinn hvort magnesíum gæti verið eitthvað sem hentar þér. Best er auðvitað að nálgast magnesíum beint úr fæðunni en ég mæli einnig með því í duft formi sem blandað er í vatn, það bragðast einstaklega vel og mér finnst líkaminn vinna vel úr því.
Endilega deilið pælingum hvað þetta varðar ef einhverjar eru.
Erna er vatnsberi sem má ekkert illt sjá. Hún býr í stórborginni Bogotá í Kólumbíu ásamt manni sínum og syni. Erna er stúdent í tungumálum og samtímadansi, er yogakennari hjá Yoga Alliance en hún er jafnframt útlærður ferðamálafræðingur frá Ferðamálaskólanum í Kópavogi. Erna talar fimm tungumál og þrjú af þeim daglega. Hennar helstu áhugamál eru ferðalög, fjölskylda, hugur og heilsa.