Það má kippa í lag upp á eigin spítur ýmsum óþægilegum kvillum sem hrjá okkur, svo framarlega sem þeir eru ekki á alvarlegu stigi.
Þá er átt við kvilla eins og t.d. höfuðverk af völdum streitu, brjóstsviða og jafnvel bakverki. Stundum er lækninguna hreinlega að finna inni í ísskápnum!
1. Bakverkir
Ef þú þjáist af bakverkjum ættir þú að fara í 10-15 mínútna heitt bað tvisvar sinnum á dag. Einnig getur verið mjög gott að nota heitan bakstur og þú getur búið hann til á eftirfarandi hátt:
Fylltu koddaver með u.þ.b. 2 kílóum af ósoðnum (!) hrísgrjónum og saumaðu fyrir. Settu þetta síðan inn í örbylgjuofn og hitaðu í 2 mínútur eða þar til pokinn er orðinn ylvolgur. Hristu volgan pokann og láttu hann síðan liggja á bakinu á þér í 20 mínútur og endurtaktu aftur síðar um daginn.
Þetta er talið öruggara en að nota rafmagnshitapoka því þeir geta valdið bruna á húðinni. Ef hitinn hefur ekki áhrif á verkina skaltu prófa ísbakstur. Þá vefur þú ísmolum inn í handklæði eða viskustykki og heldur því að auma svæðinu 2-3 sinnum á dag, 20 mínútur í senn.
Ef þú ert með þráláta bakverki sem þér tekst ekki að vinna bug á sjálf, skaltu hiklaust leita til læknis.
2. Streituhöfuðverkur
Fylltu stóran plastpoka af frosnu grænmeti og leggðu hann á ennið. Þú getur líka prófað að vefja heitu handklæði utan um höfuðið en það reynist sumum betur en ísbakstur. Ef þér er illt í hálsi og öxlum samtímis þá getur verið alveg kjörið að fara í vel heita sturtu og láta vatnið renna á aumu svæðin af töluverðum krafti. Einnig getur þú nuddað hálsinn og axlirnar eða fengið vin eða fjölskyldumeðlim til liðs við þig.
Þá tegund höfuðverkja sem orsakast af spennu og streitu má oft losna við með djúpöndun, afslappandi baði eða með því að hlusta á góða og slakandi tónlist. Að sjálfsögðu skaltu leita til læknis ef þú ert með stöðugan höfuðverk í meira en 2 daga eða ef verkurinn er mun meiri en venjulega.
3. Hálsbólga
Ef þú ert með hálsbólgu þá er mjög gott að skola hálsinn þrisvar á dag með einu glasi af volgu vatni með einni teskeið af salti út í. Heitt te með hunangi og sítrónu getur líka gert kraftaverk. Forðastu allt í umhverfinu sem getur valdið ertingu í hálsinum, eins og sígarettureyk og ryk. Menthol brjóstsykur, eða aðrar hálstöflur, er svo auðvitað kjörinn til þess að mýkja hálsinn og minnka eymslin.
4. Brjóstsviði
Það eru til nokkur ráð til þess að laga brjóstsviða. Oft nægir að narta svolítið í einfaldan mat eins og saltkex til þess að hann hverfi. Eitt vatnsglas með hálfri teskeið af matarsóda er nær skotheld leið til þess að losna við brjóstsviða. Það má endurtaka þetta á tveggja tíma fresti en ekki oftar en fjórum sinnum á dag.
Einnig er heppilegt að sofa með hátt undir höfði ef brjóstsviði sækir á þegar gengið er til náða. Það er hægt að gera ýmislegt til þess að koma í veg fyrir brjóstsviða, eins og að forðast drykki sem innihalda koffín og áfengi en það getur verið ertandi fyrir magann. Einnig ætti að draga úr fitu og brasi í daglegri fæðu og forðast að borða tveimur tímum fyrir svefn.
Góðan bata!
Hrund Hauksdóttir er blaðamaður, hljóðbókalesari, nautnaseggur og pjattrófa. Hún stundaði háskólanám í fjölmiðlun í Bandaríkjunum og félagsfræði við HÍ. Hrund ritstýrði Vikunni frá 2000-2002 og var eins konar partípenni sunndagsútgáfu Morgunblaðsins 2006-2009, þar sem hún skrifaði undir heitinu Flugan en undanfarin 6 ár hefur Hrund skrifað kynningarefni fyrir Frjálsa Verslun.
Nýjasta Pjattrófan er miðbæjarmaddama sem les bækur af ástríðu, stundum nokkrar í einu, enda er hún í tvíburamerkinu og skiptir hratt og auðveldlega um skoðun.