Við gefumst aldrei upp á markmiðum okkar. Þó svo stundum geti blásið á móti þá komum við okkur strax á réttu brautina aftur…
Þegar við erum að byrja nýjan lífsstíl erum við full af krafti og með miklar væntingar.
Við byrjum oft mjög vel og erum tilbúin að breyta miklu og hvað þá að standast freistingar sem eru alltaf í kringum okkur.
Við erum sannfærð um að við munum ná markmiðum okkar og láta ekkert stoppa okkur. En við verðum alltaf að gera ráð fyrir að eitthvað klikki nú hjá okkur.
Það getur komið fyrir að við lendum í veislu og dettum illilega í það af kökuáti eða missum úr æfingu sem breytist í heila viku. Og þá er eins og við séum komin á byrjunarreit aftur og allt vex í augum.
En þú hefur alltaf tvo kosti:
Annars vegar að taka fleiri skref aftur á bak sem kemur þér enn lengra frá markmiðinu þinu eða viðurkenna að hafa mistekist sem er alveg eðlilegt og taka eitt lítið skref áfram. Að gefast ekki upp og halda ótrauð áfram er það mikilvægasta sem þú velur.
FAKE IT TILL YOU MAKE IT
…stundum þarf maður það til að byrja með og svo meikar maður það og heilsuræktin verður partur af lífinu. Þú ert og verður ánægð þegar þú ert á þeim stað.
Ef þú finnur fyrir því að þú ert ekki vel upplagður eða upplögð fyrir hreyfingu, veldu þá eitthvað af þessum ráðleggingum og það gæti hjálpað þér:
- Hreyfðu þig í stuttan tíma, 10 mín geta gert kraftaverk. Þú þarft ekki heila klst til að finna fyrir áhrifum.
- Prófaðu nýja heilsuuppskrift eða t.d. nýjan heilsudrykk í blandarann.
- Byrjaðu daginn á hollum morgunmat og þú ert búin að stimpla þig inn í daginn.
- Ekki gleyma vatninu. Merktu strik á flösku til að merkja hvenær þú átt að vera búin að drekka rétta magnið. 8 glös á dag og þú finnur muninn.
- Lestu heilsusíðurnar á netmiðlum og fáðu hvatningu. Lestu vel póstana frá þjálfara þínum 😉
- Skrifaðu matardagbók og þú munt læra af því. Settu gott forrit í símann sem hjálpar þér að fylgjast með þér, myfitnesspal.com
- Opinberaðu markmiðin þín, það hjálpar þér að halda þér við þau.
- Finndu þér æfingafélaga eða æfingahóp. Ótrúlegt hvað það hjálpar mikið að tilheyra hóp og eiga að mæta.
- Taktu göngutúr, skiptir ekki máli hve langt. Bara út og fá ferskt loft.
- Settu mynd af því sem þú ætlar að gera, t.d. ferðinni þinni sem þú ætlar í sumar og hafðu hana sýnilega til að minna þig á þú ætlar að vera í góðu formi til að njóta ferðarinnar enn betur.
- Verslaðu í heilsuhillunum og fylltu á heilsutankinn þinn heima.
- Skoðaðu innihaldslýsingar og gerðu þér grein fyrir hvað þú ert að borða.
- Taktu fram hjólið um leið og færi gefst, frábært að geta komist í ræktina hjólandi.
- Farðu í vorverkinn og finndu hvað þú ert að hreyfa þig mikið við það.
- Taktu stigana frekar en lyftuna. Það munar um alla hreyfingu og minnir okkur á hjartsláttinn okkar.
- Borðaðu fleiri ávexti og grænmeti og það tengir þig við hollustuna.
- Borðaðu hægar og njóttu hvers bita lengur. Það tekur magann 20 mín að nema hvort hann sé orðinn saddur.
- Gerðu skemmtilegan lagalista fyrir gönguna. Ótrúlegt hvað maður gengur hraðar og tíminn fljótur að líða með hressilega tónlist.
- Fáðu nýtt prógram sem heldur þér við efnið ef þú missir úr æfingu.
- Leiktu þér meira með börnunum, það er gott að gleyma sér í leik með krökkunum og fá góða æfingu og samveru út úr því.
Með heilsusamlegum lífsstil þá gerum við ráð fyrir að stíga aðeins út af brautinni en við komum okkur inná hana fljótt aftur. Ef við ætlum okkur að vera fullkomin þá er það til að gera mistök og brjóta okkur niður.
Við þurfum að minna okkur á að góðir hlutir gerast hægt!
Guðbjörg er iþróttakennari frá Íþróttakennaraskóla Íslands. Hún hefur verið í líkamsræktarbransanum frá því árið 1989. Alltaf tilbúin að taka að sér krefjandi verkefni. Haldið ýmis þjálfaranámskeið fyrir þolfimikennara og einkaþjálfara auk þess að vera stundakennari við HR íþróttafræði. Undanfarin 19 ár hefur hún starfað með Agústu Johnson en nú hefur hún stofnað sitt eigið fyrirtæki, G fit heilsurækt og elskar að taka þátt í vellíðan fólks og upplifa árangur í líkamsrækt. Guðbjörg á skilningsríkan eiginmann og þrjú yndisleg börn.