Við könnumst öll við gjörðina, öll sofum við og flest þekkjum við einum of vel hversu lamandi það er að fara í gegnum heilan vinnu- eða skóladag án nægs svefns.
Þrátt fyrir það sofum við mörg hver ekki nóg en þaðan af síður unglingarnir okkar sem eiga það oft til að vaka eins lengi og þeir komast upp með þrátt fyrir að eiga að mæta í skóla snemma næsta morgun. Hvers vegna gera þeir þetta? Getur verið að það séu einhverjar aðrar ástæður sem liggja að baki þessu en bara það hversu spennandi það er að tjatta við félagana á facebook?
Hér eru nokkrar staðreyndir um svefn unglinga:
1.
Svefninn er okkur svo mikilvægur að án hans getum við ekki lifað. Þrátt fyrir það virðumst við kjósa að sofa sífellt minna eftir því sem við eldumst og skylduverkin verða fleiri (1).
2.
Mjög mikilvægt er að unglingar sofi að lágmarki níu til tíu tíma á sólarhring þar sem unglingsárin eru tími þroska og hormónabreytinga (2; 3).
3.
Þrátt fyrir aukna svefnþörf á unglingsárunum virðast flestir unglingar samt frekar stytta svefntíma sinn en að lengja hann (2).
4.
Þegar krakkar komast á unglingsár fara þeir síðar í rúmið á kvöldin (4).
5.
Þetta stafar af breytingum á lífeðlisfræðilegum ferlum og hormónastarfsemi á unglingsárunum, í rauninni seinkar svefntíma unglinga vegna þess að lífeðlisfræðileg þörf þeirra fyrir að sofa vaknar síðar en hjá fullorðnum – þannig ef hormónastarfsemi fullorðinnar manneskju veldur að hún er orðin dauðþreytt í kringum 11, þá verður unglingur ekki jafn þreyttur fyrr en um eittleytið að nóttu til (5).
6.
Niðurstöður langtímarannsóknar meðal íslenskra unglinga sýndu fram á að íslenskir unglingar fara síðar í háttinn og sofa skemur en evrópskir jafnaldrar þeirra og töldu rannsakendur þetta hugsanlega tengjast því að klukkan á íslandi er stillt vitlaust miðað við tímabeltið sem Ísland tilheyrir í raun (6).
7.
Unglingar (og annað fólk) verða meira pirraðir, finna til meiri kvíða, spennu og eirðarleysis eftir skertan svefn, árvekni er minni og frammistaða í skóla getur verið verri, en svefnskortur getur meira að segja veikt ónæmiskerfið okkar! (7; 8; 9)
9.
Svefninn er margslunginn og öllum mannverum mikilvægur. Allir þurfa að fá nægan svefn og sérstaklega unglingar sem eru á unglingsárunum að ganga í gegnum miklar þroskabreytingar bæði andlega og líkamlega.
10.
Rannsóknir hafa síðan sýnt að lífeðlisfræðileg þörf fyrir að sofa vaknar síðar í unglingum en í fullorðnum.
Þetta er eitthvað fyrir foreldra að hafa í huga, unglingurinn er ekki bara að sýna óþekkt þegar hann fer ekki að sofa fyrir miðnætti og hann er ekki bara latur þegar hann á erfitt með að vakna á morgnanna, heldur hefur hann ekki enn öðlast sömu stjórn og við fullorðnir höfum í þessum efnum.
Sveindís Þórhallsdóttir útskrifaðist í vor með BS gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands en býr nú í fallegum bæ á Finnlandi þar sem hún leggur stund á mastersnám í íþrótta- og æfingasálfræði. Sveindís er jafnframt einkaþjálfari, heldur úti fjarþjálfun á vefsíðu sinni og hefur mikinn áhuga á hvers kyns hreyfingu og heilbrigði.
Pole fitness á hug hennar allan og fríkvöldunum er oftar en ekki varið í að teygja fyrir framan sjónvarpið. Hún á eitt stykki frábæran kærasta og dreymir um að bæta kisu á heimilið.