Þrátt fyrir að hafa æft fótbolta sem krakki og stundað reglulega líkamsrækt eftir það þar sem endalaust var hamrað í mann að það yrði að teygja á eftir æfingar sá ég engan sérstakan tilgang í þeim fyrr en síðar; ég hafði ekki skilning á því nákvæmlega af hverju teygjur eru gagnlegar og af hverju við ættum að eyða dýrmætum tíma okkar í þær.
Þegar ég svo loksins sá ljósið tók ég þá ákvörðun að upplýsa eins marga samlanda mína og hægt er um gagnsemi teygjuæfinga!
Þessi grein er liður í því átaki, en hér eru tíu frábærar ástæður fyrir því að þú ættir að eyða smá tíma í teygjuæfingar í lok líkamsræktar:
1. Teygjuæfingar auka liðleika og hreyfisvið líkamans en þetta gæti hægt á hrörnun liðamótanna.
2. Teygjuæfingar minnka líkur á meiðslum.
3. Teygjuæfingar minnka líkur á harðsperrum og óþægindum eftir æfingar.
4. Teygjuæfingar bæta líkamsstöðu.
5. Teygjuæfingar minnka spennu í vöðvunum sem hefur jákvæð áhrif á ýmsa þætti, til dæmis streitu.
6. Teygjuæfingar hjálpa vöðvunum að slaka á sem stuðlar að auknu flæði súrefnis og næringarefna í vöðvana.
7. Teygjuæfingar bæta frammistöðu þannig þú stendur þig betur í íþróttinni þinni eða líkamsræktinni sem þú stundar.
8. Teygjuæfingar spara orkueyðslu líkamans vegna þess að liðugari líkami þarf minni orku til að hreyfa sig.
9. Teygjuæfingar minnka líkur á verkjum í mjóbaki.
10. Teygjuæfingar bæta blóðflæði líkamans.
Nú ættu allir að vera komnir með tíu gullnar ástæður fyrir því að gefa teygjuæfingum meira pláss í ræktarferðunum!
Gerðu þær í lok æfingar þegar vöðvarnir eru orðnir vel heitir, teygðu létt á og haltu í 30 sekúndur til einnar mínútu. Ef þú finnur mikið til ertu að teygja of langt.
Ef þú ert reglulega stirð/ur á ákveðnu svæði getur verið gott að endurtaka teygjuna.
Sveindís Þórhallsdóttir útskrifaðist í vor með BS gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands en býr nú í fallegum bæ á Finnlandi þar sem hún leggur stund á mastersnám í íþrótta- og æfingasálfræði. Sveindís er jafnframt einkaþjálfari, heldur úti fjarþjálfun á vefsíðu sinni og hefur mikinn áhuga á hvers kyns hreyfingu og heilbrigði.
Pole fitness á hug hennar allan og fríkvöldunum er oftar en ekki varið í að teygja fyrir framan sjónvarpið. Hún á eitt stykki frábæran kærasta og dreymir um að bæta kisu á heimilið.