Við gerum okkur flest ekki grein fyrir því hversu hollt og mikilvægt það er að drekka vatn sem fæst beint úr krananum og er hollasti svaladrykkurinn okkar.
Vatnið bætir meltinguna, eykur brennsluna, húðin verður fallegri, nartþörfin minnkar, þú færð meiri orku og þetta er frítt. Hvað viljum við meira?
Það er alltaf gott að fá ábendingar hvernig við getum drukkið meira vatn því mælt er með því að ná ca 2 lítrum (8 glös) af vatni á dag.
1.
Fáðu þér góða vatnsflösku sem gerir vatnið þitt girnilegra og hafðu hana með þér hvar sem þú ert. Þetta er þín flaska og þú ferð vel með umhverfið þitt. Mundu að þú ert að fá ferskt vatn og vilt fá það í hreina flösku.
2.
Góð regla er að drekka eitt vatnsglas fyrir máltíð og þú færð líka meira magafylli og borðar jafnvel minna.
3.
Ef þú ert að bera fram á veisluborð, hafðu þá tvö glös og annað er fyrir vatnið.
4.
Hafðu vatnsflöskuna við hendina í bílnum og þú fyllir á tankinn þinn líka.
5.
Sumum finnst erfitt að drekka af stút, fáðu þér sogrör í skemmtilegum lit.
6.
Heitt vatn er líka góð tilbreyting og mjög hollt að fá sér volgt sítrónuglas um leið og þú vaknar. 1-2 tsk af eplaediki í vatn er heilsuráð sem stendur alltaf fyrir sínu.
7.
Mundu að drekka nóg vatn með vítaminum ef þú tekur þau.
8.
Í góðra vina hópi með vínglas eða bjór skaltu hafa vatnsglasið við hliðina og drekka 1 vatnsglas á móti 1 vínglasi.
9.
Ef þú ert að hætta gosdrykkju þá er gott að breyta yfir í sódavatn og þar er nóg úrval. Skoðaðu innihaldslýsingar því oft er búið að bæta við hitaeiningum í vatnið.
10.
Gerðu vatnsdrykkju að vana og láttu fjölskyldumeðlimina fylgja vananum.
Þessi ráð geta hjálpað þér til þess að ná 2 lítrum á dag og lyftu upp glasi og skál !
Vatnið er svo sannarlega besti drykkurinn okkar og hægt er að krydda vatnið okkar á skemmtilegan hátt sem gerir það enn meira spennandi, hér koma nokkrar útgáfur:
Engifer og myntuvatn
5 cm bútur af engiferrót, þvegin og skorin í bita
3 greinar af ferskri myntu
2 l vatn
Kremjið varlega engiferrótina og myntuna í morteli. Blandið saman við vatnið og látið standa í ísskáp í klukkutíma.
Agúrkuvatn
½ meðalstór agúrka
1 sítróna, þvegin og skorin í báta
2 l vatn
Flysjið agúrkuna, skerið hana eftir endilöngu og í sneiðar. Setjið útí vatnið með sítrónunum og látið standa í ísskáp klukkutíma.
Lime og rósmarínvatn
1 lime, þvegið og skorið í báta
1 grein af fersku rósmarín
Safi úr einni appelsínu og börkur af ½ appelsínu
2 l vatn
Setjið limebátana og rósmarín í vatnið. Skerið ysta lagið af berki hálfrar appelsínu, best er að nota flysjárn Setjið útí vatnið, ásamt appelsínusafanum. Látið standa í ísskáp í klukkutíma.
Bestu kveðjur!
Guðbjörg er iþróttakennari frá Íþróttakennaraskóla Íslands. Hún hefur verið í líkamsræktarbransanum frá því árið 1989. Alltaf tilbúin að taka að sér krefjandi verkefni. Haldið ýmis þjálfaranámskeið fyrir þolfimikennara og einkaþjálfara auk þess að vera stundakennari við HR íþróttafræði. Undanfarin 19 ár hefur hún starfað með Agústu Johnson en nú hefur hún stofnað sitt eigið fyrirtæki, G fit heilsurækt og elskar að taka þátt í vellíðan fólks og upplifa árangur í líkamsrækt. Guðbjörg á skilningsríkan eiginmann og þrjú yndisleg börn.