Ert þú forfallinn jóga iðkandi eða langar þig að prófa jóga? Ég þarf ekkert að taka fram neinar kannanir til að geta fullyrt vinsældir jóga og það eru margar milljónir manna sem hafa áhuga á að byrja.
Sem jógakennari og dansari er rétt líkamsbeiting, fyrir mér, algjörlega mikilvægasti partur af asana æfingum.
Ef til vill ekki mikilvægasti parturinn af jóga per se, en algjörlega sá mikilvægasti í asana.
Þegar þú beitir líkamanum rétt ertu að virða líkama þinn eins og hann er í dag. Þannig kemur þú í veg fyrir meiðsl og styrkir og liðkar líkamann í bland á réttan hátt.
Það skiptir engu máli hvernig hann var fyrir ári síðan eða hvernig hann verður á morgun, hlustaðu á líkamann í dag og hugsað vel um hann.
Það þýðir auðvitað ekki að þú eigir ekki að reyna neitt á þig, en ef þú lærir að finna og virða eigin mörk, þá veistu hvernig þú átt að reyna á þig, hvar þú stendur í hvert skipti sem þú stígur á mottuna og hvernig þú kemur í veg fyrir að slasa sjálfa þig.
Hér eru nokkur ráð fyrir þau sem vilja prófa sem og lengra komna, hvernig á að huga að líkamsbeitingunni í jóga æfingunum þínum.
1.
Skildu metinginn eftir fyrir utan. Ekki bera þig saman við næsta mann og reyna svo að ýta þér lengra. Það er algengasta ávísunin á meiðsl.
2.
Bara afþví þú getur staðið á haus, ýtt þér upp í brú eða snert á þér ennið með tánum, þýðir ekki að þú eigir að gera það. Ef líkaminn vinnur ekki rétt saman fórnarðu einum part fyrir annan. Aftur ávísun á meiðsl.
3.
Ef þú ert stirð einhversstaðar eða finnst þér vanta styrk, einbeittu þér þá að þeim parti en ekki ýta þér eins langt og þú getur til að ná einhverri stöðu. (Á einnig við í nr 2).
4.
Hugsaðu um að lengja hrygginn. Þetta á við í flest öllum stöðum (og alltaf). Ímyndaðu þér að þú sért að skapa pláss á milli hryggjaliðanna. Þannig fær hryggurinn meiri hreyfanleika og staðan þín verður betri.
5.
Lokaðu augunum. Ef þú getur, taktu þér tíma í stöðu sem þér finnst erfið og lokaðu augunum. Andaðu djúpt og hlustaðu á líkamann. Hann segir þér hvar þarf að lengja, beygja eða strekkja.
6.
Spurðu kennarann. Ef þér finnst þú ekki vera að gera eitthvað rétt – alls ekki vera feiminn við að spyrja! Ef það gefst ekki tækifæri í miðjum tímanum, spurðu þá eftir tímann. Kennarinn vill ekkert meira en að hjálpa.
7.
Ef þér tekst ekki að spyrja, googlaðu. Það er til aragrúi af góðum síðum sem leiðbeina þér í jógastöðum. Pinterest virkar líka vel.
8.
Ef það eru speglar í salnum, notaðu þá. Þú sérð ef bakið er allt bogið eða hnén benda ekki yfir tærnar. Ekki horfa á þá sem eru í kring. Einbeittu þér eingöngu að fallega líkamanum þínum.
9.
Ef það eru kubbar til staðar, notaðu þá, alltaf! Ekki vera feiminn við að nota kubba. Það þýðir ekki að þú sért verri í jóga. Ef eitthvað er þá ertu bara betri (við sjálfa þig). Ég nota alltaf kubba þó ég sé liðug. Til dæmis í stöðu þríhyrningsins eru hendurnar á mér ekki nógu langar í samræmi við fæturna til að ég nái niður í gólf og haldi réttri stöðu á mjóbakinu. Þannig fórna ég bakinu ef ég set hendina í gólfið (sjá punkt 2).
10.
Treystu sjálfri þér. Þú getur meira en þú heldur og ef þú hlustar vel á líkamann þinn fer hann fljótt að geta ótrúlegustu hluti.
Prófaðu að fara eftir þessum atriðum á næstu jógaæfingu eða þegar þú byrjar og sjáðu hvort það hjálpi þér að einbeita þér að líkamsstöðunni þinni og jafnvel geri hana aðeins betri. Ekki bara reyna að búa til eitthvað ákveðið form með líkamanum eins og þú heldur að það eigi að líta út. Hlustaðu á sjálfa þig því þú veist alltaf best. Nema að kennarinn segi þér annað. Því auðvitað á alltaf að hlusta á kennarann.
Namasté
Erna er vatnsberi sem má ekkert illt sjá. Hún býr í stórborginni Bogotá í Kólumbíu ásamt manni sínum og syni. Erna er stúdent í tungumálum og samtímadansi, er yogakennari hjá Yoga Alliance en hún er jafnframt útlærður ferðamálafræðingur frá Ferðamálaskólanum í Kópavogi. Erna talar fimm tungumál og þrjú af þeim daglega. Hennar helstu áhugamál eru ferðalög, fjölskylda, hugur og heilsa.