Þig langar að komast aftur í flíkurnar sem þú elskar en þær líta undarlega út á þér, líklegast af því þú ert bara komin í nýja stærð. Það kostar of mikið að kaupa fullt af nýjum fötum svo þú ákveður að fara hina leiðina og henda af þér nokkrum kílóum.
Þú finnur þér áætlun og heldur að þú sért að gera bókstaflega allt rétt en skilur ekkert í því af hverju árangurinn lætur á sér standa. Fötin halda áfram að vera óþægileg eða þá að vigtin er bara með stæla. Kannski ónýtt batterí eða eitthvað. Um daginn birtum við tékklista fyrir fólk sem er að reyna að léttast, gengur samt illa og skilur ekki af hverju.
Við ætlum að reyna að leysa þessa ráðgátu svo hér er framhald. 10 ástæður þess að þú ert ekki að léttast þó þú reynir…
1. Makinn er ekki að sýna þér stuðning
Þú ert kannski með göfug markmið um að létta þig en ef makinn þinn er ekki að sýna þér stuðning þá geturðu ekki búist við miklum árangri. Það er erfitt að komast áfram með þetta ef hann/hún heldur áfram að vilja panta hamborgara og franskar, langar að fara í ísbíltúra eða hvetur þig til að sofa út í stað þess að fara í ræktina.
Þú verður að gera honum/henni ljóst að þú náir ekki almenninlegum árangri í átakinu ef makinn sýnir þér ekki góðan stuðning. Næst þegar þið farið út að boða skalt hvetja hann/hana til að deila með þér forréttinum og sleppa bara eftirrétti. Hún/hann verður að vera með þér, alla leið.
2. Þú hleður of miklu ofan á salatið þitt
Salat er með því hollasta sem þú setur á diskinn þinn en hitaeiningafjöldinn rýkur upp um leið og þú hellir brauðteningum, beikonbitum, geitaosti, hnetum og þurrkuðum ávöxtum yfir salatið. Hugsaðu um hversu hitaeiningaríkt salatið þitt er – til dæmis eru 100 auka hitaeiningar í 10 brauðteningum. Þarftu þær?
3. Þú drekkur ekki nægilega mikið vatn
Vatnsdrykkja forðar þér frá vökvaskorti – segir sig sjálft, en rannsóknir hafa sýnt fram á hvernig vatnsdrykkja getur hjálpað okkur að léttast svo um munar. Ef þú drekkur eitt vatnsglas fyrir matinn áttu líklegast eftir að setja minna á diskinn og ef þú borðar mat sem inniheldur mikið vatnsmagn (grænmeti og ávexti) áttu eftir að verða saddari fyrr og borða þannig minna. Önnur rannsókn leiddi einnig í ljós að ef maður drekkur kalt vatn þá hraðar það efnaskiptum og heldur þér frá fíkn í sykraða drykki á borð við safa og gos.
Fáðu þér vatn manneskja!
4. Þú gleymir að skemmta þér
Stress og streita eru fitandi. Þetta hafa rannsóknir leitt í ljós en með því að hvílast lítið eða illa sækir líkaminn heldur í fæðu sem inniheldur hátt magn hitaeininga, sérstaklega fitu og sykur. Þessvegna þarftu að gæta þess að fá alltaf næga hvíld, hvort sem þú leggur þig og hvílist þannig eða nærð 8 tíma svefni á nóttu. Svo má að sjálfsögðu hvíla sig með ýmsum öðrum hætti, dansa, versla, ganga, kela…
5. Þú ert í megrun, eða þannig…
Hvort sem þú ert á hellisbúakúr, Atkins kúr, Danska eða þína eigin áætlun þá geturðu ekki bara svona dútlað við þetta og búist við að sjá árangur. Haltu þig á réttu spori og þú munt sjá kílóin hverfa eitt af öðru – “svindlaðu” og vigtin mun lítið haggast.
6. Þú ert alltaf úti að borða
Það er æðislegt að fara út að borða, maður slakar vel á þannig og hvað er betra en að láta bara þjóna sér til borðs og þurfa ekkert að hugsa um að ganga frá? En vittu til, þú ert mun líklegri til að borða mikið ef þú ferð út að borða, panta forrétt, eftirrétt, vín með matnum, steiktan mat… Ef þú vilt ekki sleppa því að fara út í ‘löns’ eða kvöldverð… pantaðu þá frekar það sem er hollast á matseðlinum og ekki hika við að biðja kokkana um að mæta þörfum þínum. Sleppa brauði og hrísgrjónum og hafa kjúklinginn skinnlausan. Eitt glas af víni með og ekki meira…7. Þú heldur ekki matardagbók
Með því að halda matardagbók og telja hitaeiningar nærðu mikið betur að halda utan um hvað fer ofan í þig og sjá þannig neysluna svart á hvítu. Rannsóknir hafa leitt í ljós að þau sem halda matardagbók eru umtalsvert líklegri til að léttast. Á netinu er að finna margskonar matardagbækur. Prófaðu líka www.myfitnesspal.com
8. Þú æfir á tóman maga
Ef þú æfir reglulega án þess að borða neitt fyrst brennirðu heldur vöðvum en fitu og það viljum við ekki að gerist. Vöðvar brenna fleiri hitaeiningum en fitan og því meiri sem vöðvamassi þinn er því fleiri hitaeiningum brennirðu og um leið hefurðu aukinn styrk á æfingum.
9. Þú gerir bara brennsluæfingar
Ef þú ert komin með póstnúmer á hlaupabrettið þitt en lyftir aldrei grammi ertu að missa af mikilvægustu atriðum líkamsþjálfunar. Lyftingar eða vöðvaþjálfun styrkir bæði vöðva og liðamót, byggir upp styrk og eykur brennslu og hraðar á efnaskiptum. Að auki heldur brennslan áfram, eftir að þú ert búinn að æfa og kominn í jakkann. Þannig að – byggðu upp vöðvamassa og finndu hvernig þú léttist.
10. Þú borðar ekki nóg
Ekki svelta þig til að spara hitaeiningainntöku. Það ruglar brennslukerfið í líkamanum og þegar þú kemur að kvöldverðarborðinu muntu líklegast borða mikið meira en þú þarft sökum þess að þú ert orðin hungurmorða. Ef þú sveltir þig áttu bara eftir að borða meira á milli mála og verða of svöng þegar kemur að matartíma. Passaðu frekar upp á að hafa skammtana hóflega stóra og borðaðu hollann og góðan mat.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.