Ég hef oft leitt hugann að því hvernig ég var alin upp í tengslum við mat og hef ég eiginlega komist að þeirri niðurstöðu að þar liggur hundurinn svolítið grafinn í baráttunni við aukakílóin (eða a.m.k. hluti af honum).
Ég vil nú samt ekki kenna fólkinu í lífi mínu um þá staðreynd að það er ég sem vel að borða of mikið, og að fyrsta þriðjung ævi minnar hafði ég engan áhuga á íþróttum en ég er eiginlega orðin svolítið viss um að uppeldið hafi haft áhrif á þetta tvennt.
Til dæmis hún mamma mín. Elsku mömmu minni, finnst svoooo gaaaamaaaannn að geeefaaa fólki að boooorðaaaaa. Ef þú ferð í heimsókn til hennar þá segir hún:
-Viltu eitthvað ?
-Nei takk
-Alveg viss ?
-Já alveg viss
-Ég á kex!
-Nei ég er ekki svöng
-En pönnukökur, á ég að baka handa þér pönnukökur ?
-Nei ég er EKKI svöng!
-Ég get búið til brauð handa þér í samlokugrillinu, viltu það ?
-MAMMA ÉG ER EKKI SVÖNG, HÆTTU AÐ BJÓÐA MÉR EITTHVAÐ AÐ BORÐA!
Svo þagnar hún í svona kannski 15 mínútur og byrjar aftur. Já henni finnst svo gaman að gefa manni að borða og þegar ég var lítil þá var bæði fagnað og syrgt með mat. (Hún er líka þessi týpa sem bakar hálfa köku á mann í afmælum! Skemmtilegast í heimi að fara í boð til hennar, endalaust úrval, en já…. )
Pabbi var líka duglegur að gefa mér pening fyrir nammi og man ég marga laugardaga þar sem var keypt alltof mikið af sælgæti fyrir eina kvöldstund. Amma mín þoldi heldur ekki afganga og þegar ég fór til hennar og fékk að borða fékk ég oft það hlutverk að klára matinn (sko allan matinn!). Ég var nefnilega með mikla matarlyst (og er enn), þó svo að ég hafi nú ekki verið neitt feit sem barn. Ég var hávaxin, en ekki feit, en ég fékk að heyra það oftar en einu sinni frá fólki hvað ég væri STÓR! eins og það væri eitthvað rangt og í kjölfarið fór mér að líða illa út af vaxtarlagi mínu.
Eins og mamma
Í dag geri ég það sama og mamma. Mér finnst hrikalega gaman að gefa fólki að borða. Ég baka líka hálfa köku á mann fyrir afmæli! Elda handa kallinum mínum góðan mat til að gera hann glaðan, verðlauna börnin mín með sælgæti og ég fagna og syrgi með því að kaupa mér Ben & Jerry’s, panta pizzu eða fara út að borða. Ég er reyndar alltaf að reyna að bæta mig en fyrr en varir er ég búin að segja við strákinn minn “Eigum við að kaupa ís!!!!!” (alveg með svona skrækjum tón og allt) til að ná honum t.d upp úr sjónum í Nauthólsvík.
Já maður lærir það sem fyrir manni er haft.
Sumu hef ég breytt sem ég lærði í barnæsku. Til dæmis finnst mér gott að eiga afganga, sérstaklega þegar afgangarnir eru hollur matur og mér finnst allt í lagi að leifa mat. Ég læt börnin mín ekki klára matinn sinn og segi aldrei við þau “Ef þú klárar matinn þinn þá færðu ís”, því ég kann mér ekki magamál í dag út af þessari uppeldisaðferð og ég belgi mig út af mat að óþörfu. Ég hef heldur ekki nammidaga þar sem mér þykir nammið verða meira spennandi ef það er sérstakur dagur tileinkaður því. Í staðinn reyni ég að umgangast nammið á skynsaman hátt og kaupi lítið í einu (*ehmr*, tekur mig örugglega annan þriðjung ævinnar að ná þessu alveg).
Við kennum börnunum okkar að umgangast mat, þau umgangast hann á nákvæmlega þann hátt sem við gerum og svo verða þau fullorðin. Það má einnig yfirfara þetta á hreyfingu, því ef við höfum hreyfingu sem part af daglegri rútínu þá læra börnin okkar það og í kjölfarið veeeeeeerður kannski eeeeekki svooooona miiiiikið mááááál að mæta í ræktina á fullorðinsárum eða hreyfa sig.
Ég hef nefnilega líka komist að því að margt af þessu fólki sem er alltaf fitt og flott (má ég blóta ?) er oft (er ekki að alhæfa) fólkið sem hefur hreyfinguna sem sjálfsagðan hlut og þá á ég við að þau stunda t.d. hjólreiðar, göngutúra, útivist, fjallgöngur án þess endilega að hugsa hreyfinguna sem einhverja geðveika líkamsrækt.
*Andvarp*
Það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja, og ég hlýt að ná þessu einhvern daginn. Er það ekki annars ? Batnandi mönnum er bezt að lifa. Eða svo er mér sagt.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.