Fáðu þér einkaþjálfara, breyttu um matarræði, auktu hreyfinguna, taktu fæðubótaefni, fæðubótaefni eru hættuleg ekki taka þau, hættu að borða nammi, ekki drekka gos, taktu út kaffið, sykur er eitur ekki borða hann, hrásykur er hollur borðaðu hann, borðaðu kíló af grænmeti á dag, auktu fituna, minnkaðu fituna, æfðu fimm sinnum í viku, tvisvar á dag á fastandi maga, ekki fastandi maga, eitt í dag annað á morgun. Úff!
Ég verð oft rugluð á því sem mér er ráðlagt hvað varðar að létta mig og ná upp þrótti og þol, sérstaklega þegar ég á að umturna lífinu mínu og breyta um lífstíl á einni nóttu.
Mér hefur oft verið sagt að það taki því ekki að hreyfa sig þrisvar í viku því þá náist enginn árangur! Árangurinn næst með því að fara fimm sinnum í viku í ræktina, kollvarpa matarræðinu og innbyrða 1200-1500 hitaeiningar.
Auðvitað er betra að hreyfa sig fimm sinnum í viku en þrisvar í viku og auðvitað næst árangur á því að kollvarpa matarræðinu og japla á 1500 hitaeiningum í staðinn fyrir 3000 he, en maður verður líka að spyrja sig hvaða árangri er verið að leitast eftir.
Ég man þegar ég byrjaði að hlaupa þá gat ég hlaupið í 45 sek, ég fór BARA þrisvar í viku í 9 vikur út að hlaupa en á endanum hljóp ég í 30 mínútur. Er það ekki ágætis árangur ? Með því að fara rólega af stað tókst mér að aðlagast aukinni hreyfingu (en fyrir hlaupin var hún engin) og á endanum var ég farin að hreyfa mig á hverjum degi og í heil TVÖ ÁR! Svo tók lífið smá yfirhöndina og ég er að byrja upp á nýtt núna en stundum er það bara þannig og óþarfi að væla eitthvað mikið yfir því, en tilgangur þessarra orða er að miðla því að fyrir marga er betra að byrja rólega, breyta einu í einu, aðlagast því og breyta svo fleiru.
Ég hef líka velt því fyrir mér hvort það sé búið að gleyma að leyfa fólki að byrja ? Í dag upplifi ég oft eins og maður eigi að haga strax eins og sá sem hefur stundað hreyfingu og hollt líferni í mörg ár þegar maður ákveður að taka sig á.
Ég held svona þegar ég horfi til baka að ég hafi ekki gefið mér nógu mikinn tíma í að breyta hegðunarmynstrinu hjá mér.
Annaðhvort var ég ekki að gera neitt í heilsumálunum mínum, eða ég var að gera allt. Hvernig væri að prófa að vera gera alltaf eitthvað en ekki mikið í einu og leyfa þér svolítið að meta sjálf hvað mikið er mikið.
- Kannski er 30 mínútna göngutúr mikið og þá byrjar þú á t.d 10 mín.
- Ef þú færð þér alltaf kexbita í morgunkaffinu OG klukkan þrjú, prófaðu að sleppa morgunkexbitanum og fáðu þér jarðarber í staðinn.
- Ef þér finnst erfitt að borða morgunmat, hvernig væri bara að prófa það?
- Ef þú ferð alltaf að sofa mjög seint, hvernig væri að einbeita sér á að fá góða hvíld. Hefur þér dottið í hug að hjóla upp í Kringlu ?
Prófaðu að gera eitt á dag svo þegar það er komið upp í vana, bættu þá við en breytingin þarf ekki að kosta neitt því útivist er meira segja hreyfing!
Margt smátt, gerir nefnilega eitt stórt, stundum meira segja RISASTÓRT!
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.