Ég er búin að reyna koma mér að því að taka saman það helsta í haust-tískunni í lengri tíma en það hefur reynst erfitt. Því meira sem ég skoða tískublöðin og það helsta frá stóru tískuhúsunum, því vonlausari verð ég. Ég man satt að segja ekki eftir verri haust-tísku í minni tíð!
Hjá Louis Vuitton má sjá einhvers konar “1920-piparjónku-kennslukonu” innblásna línu. Útsniðnar kápur með stórum hnöppum, kálf-síð blöðrupils utan yfir buxur og múmínálfa-hattar í jarðlitum. Alltsaman er þetta vægast sagt álkulegt og óklæðilegt kombó sem líklegast væri til að “meika eitthvað sens” í Tim Burton mynd.
Dolce & Gabbana með barokk stíl, flauel og ullarfelt með tilkomumikllum gylltum útsaum, minnir á málverk af ofhlaðnum og alvarlegum aðal suður-Evrópu á tíma barokksins. Algjörlega “over-the-top” í ósmekklegheitum og ófrumlegheitum.
Allnokkrir hönnuðir, Ferragamo, Marni, Prada og MiuMiu voru með dragtir og kjóla úr þykkum mynstruðum gardínuefnum sem einungis voru notuð til fatagerðar í seinni heimsstyrjöld vegna þess að textíl var ekki hægt að fá og fólki vantaði föt.
Ekki nóg með að maður eigi að vera í kápu/jakka, buxum og pilsi yfir í gardínuefnum þá toppa þetta litríkir loðfeldir.
Sá sem slær allt út í ósmekklegheitum er hinsvegar Marc Jacobs, (hann á einnig heiðurinn að Louis Vuitton) en fatnaður hans fær mann til að hugsa hvort hann hafi tekið ofskynjunarlyf og horft á “Teletubbies” þegar hann hannaði þessa línu: Prjónafatnaður, of stórar kápur og pils sem er líklegt að blindar gamlar kvenfélagsskonur hafa grunlausar verið látnar prjóna og barðastórir litríkir gervi-loðfelds hattar við. Í alvöru!
Eins og útrásarvíkingar sem ofmetnuðust og töldu sig flottustu og klárustu menn í heimi og náðu að sannfæra “sauðsvartann almúgan” um eigið ágæti þá hafa fatahönnuðir helstu tískuhúsanna einnig “misst sig” í þetta sinn og virðast telja sig komast upp með hvað sem er.
Ásamt þessum sem ég er þegar búin að telja upp mega Ralph Lauren, Donna Karan og Burberry líka fara passa sig. Að endurtaka sömu hlutina ár eftir ár getur ekki gengið til eilífðar?
Í næsta pistli mun ég taka saman það sem þó er nýtt, ferskt og töff í haust-tískunni frá Martin Margiela, Damir Doma, Proenza Schouler, Stella McCartney og Balmain… en hér kemur klúðrið:
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.