Harpa Einarsdóttir hannar fatnað sinn undir merkinu Ziska. Hún sigraði í Reykjavík Runway í fyrra og fékk fyrir vikið hálfa milljón í styrk og þjónustusamning við RR í eitt ár en RR mun aðstoða Hörpu við að koma framleiðslu sinni á framfæri.
Harpa er undir áhrifum frá dulspeki í hönnun sinni. Hennar eftirlætis tímabil í tísku eru miðaldir og sjöundi áratugurinn og hún segir bestu leiðina til að líta vel út vera jóga, vín og vatn…
Fullt nafn?
Harpa Einarsdóttir
Aldur?
35
Hjúskaparstaða?
Einhleyp
Búseta?
Rvk 105
Hvernig kom það til að þú gerðist hönnuður?
Ég byrjaði ung að hanna föt, fann nýlega tískuteikningar frá því að ég var 12 ára. Ég hafði alltaf mikinn áhuga á tísku, byrjaði aðeins 16 ára að vinna í Kjallaranum og vann svo í flestum tískuverslunum í Reykjavík en ég átti mér stóra drauma og var oft eirðarlaus. Flosnaði upp úr MH eftir aðeins eina önn og fór á flakk. Draumurinn var alltaf að komast inn í Saint Martins í London svo ég flutti þangað 19 ára. Ég gekk framhjá skólanum á hverjum degi með vonarglampa í augunum á leið í vinnuna í Top Shop á Oxford Circus. Þráði að læra þarna en það voru aldrei til peningar þannig að þýddi ekki einu sinni að sækja um. Ég tók svo fornám í myndlist seinna í FB og sótti frekar seint um í LHÍ – ekki fyrr en 26 ára. Ég sótti um í bæði myndlist og hönnun og komst inn í fatahönnunardeidina sem hefur nýst mér vel í myndlistinni líka.
[vimeo]http://vimeo.com/37804645[/vimeo]
Hvert sækirðu helst áhrifin?
Allstaðar að, aðallega samt úr náttúrunni. Það hljómar eins og klisja en núna er ég t.d. að skoða micro ljósmyndir af allskyns lífverum. í sumarlínunni notaði ég kristalla, marmara og ryð sem print á efnin. Mystíkin og lífsandinn eru líka sterkir áhrifavaldar. Ég reyni að skoða sem minnst af því sem aðrir eru að gera, finnst betra núna að láta innblásturinn koma til mín án þess að hafa of mikið fyrir því, “cosmosið” sendir alltaf besta kryddið til manns.
Hver er þinn eftirlætis hönnuður?
Þeir eru margir og misjafnir en undanfarið eru það hönnuðir eins og Damir Doma, Mara Hoffman og alltaf Ann Demeulemeester. Svo er Givenchy alltaf flott, Haider Ackermann hefur líka verið að koma sterkur inn að mínu mati… ég gæti haldið áfram í allan dag að telja upp!
Skiptir þig máli að fatnaðurinn sé úr náttúrulegum efnum?
Já, það er stefnan í framtíðinni að hafa öll efnin náttúruleg og vita nákvæmlega hvaðan þau koma og hvernig þau eru framleidd. Ég er svo nýbyrjuð að gera föt af einhverju viti að ég er enn hálf græn í þessum heimi. Undanfarið hef ég aðallega notast við silki, prjón, leður og rússskinn og munu flest efnin í næstu línu að mestu leiti unnin úr trjákvoðu á mjög náttúrvænan hátt. Þetta er ótrulega spennandi hágæða efni sem eru óendanlega þægileg viðkomu en Ingibjörg í Reykjavík Runway hefur verið mjög dugleg að finna flott efni fyrir Zisku.
Hvað finnst þér alltaf púkó? (t.d. herðapúðar, síð klof etc).
Púkó, hmm… er það til? Snýst ekki allt um sjálft sig á endanum. Mér dettur allavega ekkert í hug í fljótu bragði, jú reyndar hágæða skinkur!
Hvað er væntanlegt frá þér?
Ég er að vinna að moodboard fyrir sumar 2013, sú lína verður mun léttari en vetralínan, mikið um print og létt efni. Ég er mjög spennt fyrir að sjá hvernig hún mun þróast, svo er önnur myndlistarsýning í startholunum. Það er alltaf eitthvað að gerast hjá mér, ef það er eitthvað sem ég get ekki stoppað þá er það sköpunarkrafturinn!
Hvað myndirðu gera ef þú værir ekki fatahönnuður?
Ég væri sennilega að vinna hjá National Geopraphic, eða stjörnufræðingur, ef ekki ljónatemjari 😉
Uppáhalds tímabil í tískunni/menningunni?
Þau eru svo mörg en ég held að sjöundi áratugurinn og miðaldir standi upp úr!
Einfaldasta leiðin til að líta vel út?
Stunda jóga, drekka vatn og vín, gefa sér tíma að dífa tásunum í sandinn og ANDA.
Style Icon?
Buffy Sainte-Marie
Uppáhalds kvót?
“Keep your eye on your inner world and keep away from ads, idiots and movie stars.”
Dorothea Tanning
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.