„Ertu byrjuð að grána?“
Þetta er spurning sem ég hef fengið að heyra af og til síðustu ár. Ég hef alltaf verið afar sátt við kastaníbrúna hárlitinn sem ég fékk í vöggugjöf og fyrir utan að hafa verið hármódel bæði hér heima og erlendis (1992-96) hef ég ekki séð ástæðu til að lita hár mitt eftir þann litríka-feril.
En með aldri og fyrri störfum er hár mitt byrjað að grána og þótt fæstir taki enn eftir því, þá hef ég fengið ansi misjöfn viðbrögð frá þeim sem þó taka eftir þessu.
Sumar konur verða mjög hissa og finnst það algerlega óskiljanlegt að ég skuli leyfa gráu hárunum að sjást! Á meðan öðrum finnst þetta bara ansi hugrökk ákvörðun og töff að leyfa hárinu að njóta sín, ólitað og náttúrulegt með gráu strípunum. Einnig hefur hárgreiðslufólk orðið hissa þegar það uppgötvar að þetta sé minn eigin hárlitur, það er víst afar sjaldgæft að íslensk kona liti ekki á sér hárið, komin á minn aldur (ég er 42 ára).
Ég sé hinsvegar enga skömm í því að vera byrjuð að grána fylgir því að eldast, mér finnst grátt hár einnig afar fallegt og fyrst George Clooney getur þetta – afhverju ekki ég?.
Þessi fallega kona heitir Jenny hún er 57 ára, og fyrir 3 árum hætti hún að lita hár sitt og leyfði því bara að grána mér finnst hún afar falleg kona og tók einnig eftir hversu fallega húð hún hefur.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=J8QJV3zovkQ[/youtube]
Díana Bjarnadóttir útlitsráðgjafi og stílisti hefur margra ára reynslu við að aðstoða fólk með fataval. Hún starfaði meðal annars á Ítalíu og í London þar sem hún var stílisti stjarnanna hjá Giorgio Armani og Gucci.
Hefur einnig verið búsett í svíþjóð, Hollandi og á Selfossi en býr nú í Reykjavik. Díana er einnig með menntun í förðunarfræði. Greinar og ljósmyndir Díönu hafa m.a. verið birtar í tímaritunum Veggfóður, Ský og Smáralindarblaðinu. Díana er fædd 1. maí og er því naut.