Þegar ég skoða Facebook hjá mér tek ég eftir að sífellt fleiri vinkonur mínar sem ég er með á Facebook eru að stytta á sér hárið.
Mikið lifandi skelfingar ósköp er gaman að sjá að íslenskar stúlkur eru loksins að stíga aðeins út úr “sítthárniðurárass” stílnum. Nú er ég ekki að segja að allar konur eigi að stökkva út og klippa sig heldur tek ég breytingum fagnandi.
Ég hef sjálf verið að stytta hárið mitt talsvert undanfarið ár eða svo, sjálf er ég með svokallað “englahár” eða mjög fíngert dæmigert íslenskt hár. Þegar hárið mitt er komið niður á bringu eða svo er eins og það hverfi. Já, það þynnist upp og verður að engu og persónulega finnst mér það ekki smart. Þegar hárið var komið í þá sídd einhverntíma í fyrra ákvað ég að skella í BOB klippigu og ég hafði hana í mismunandi síddum. Ég var aldrei nógu sátt og fór að skoða Pixie klippinguna ennþá betur og varð alltaf hrifnari og hrifnari þangað til að ég reið á vaðið og lét hárið gossa.
Það er óhætt að segja að ég varð ekki svikin, þægileg klipping sem maður þarf nánast ekkert að hafa fyrir. Hárið helst líka eins daginn eftir þvott og þurrsjampóið gerir kraftaverk með stutt hár.
Ef þú ert föst í vananum og langar að breyta til þá mæli ég með að þú skellir þér á google eða pinterest til að skoða klippingar eða talir við hársnyrtirinn þinn og þið finnið út í sameiningu hvaða klipping gæti hentað þér, því ekki hentar sama klippingin öllum andlitum og það er mikilvægt að velja sér klippingu eftir sínu andlitsfalli.
Sumarið nálgast og hvers vegna ekki að létta aðeins af makkanum og hafa þægilega klippingu sem þarf að hafa lítið fyrir!? Ég er að minnsta kosti alsæl.
Rannveig er útskrifuð sem hársnyrtir en leggur nú stund á nám í fjölmiðlafræði. Henni finnst fátt skemmtilegta en að stunda margskonar líkamsrækt og er ekki hrædd við það að prófa nýjungar í þeim efnum, Rannveig er þessi týpíska meyja sem verður að hafa allt tip top, ofur pjöttuð að mati margra en lætur sér fátt um það finnast. Hún á tvo stráka og er harðgift.
Fylgdu Rannveigu á Instagram rannveigjonina og á Twitter @MissisRannveig