Það hefur ekki farið fram hjá neinum að ég elska að mála mig, skoða snyrtivörur, prufa þær og mála aðra.
Uppsafnaði tíminn sem ég hef eytt í að leika mér með snyrtivörur spannar mörg ár. Hárið hefur því fengið að sitja á hakanum frá því ég opnaði varalit í fyrsta skipti. Það spilar kannski inn í myndina að hárið mitt er náttúrulega slétt og ég þarf þannig séð ekki að hafa mikið fyrir því. Undanfarið hef ég þó leitt hugann meira að hárinu mínu og útliti þess.
Vandamálið með hárgreiðslur, að mínu mati eru að þær geta oft orðið svo ,,of fullkomnar”. Mér finnst þær aldrei líta nægilega náttúrulegar út á mér -mér líður eins og fermingarbarni sem er með svo mikið Elnet hársprey í hausnum að ég finn bragðið af því í munninum við tilhugsunina. Öll 15 árin mín í ballet spila líklega stærsta hlutverkið í því að ég geri lítið við hárið á mér enda var það sleikt aftur í hnút daglega með tilheyrandi spennuflóði.
Eftir að hafa kynnt mér hugmyndafræðina um ,,messy hair” hef ég komist að nokkrum góðum punktum:
- Leyfðu hárinu að ráða ferðinni að hluta til. Ef þú ætlar að vera með hnút/snúð og taglið endar alltaf pínulítið skakkt, hafðu það þá þannig -ekki neyða hárið í aðra átt en það er að fara.
- Takmarkaðu magnið af spennum og teygjum sem þú hefur til afnota, 10-12 spennur max. Greiðsla með örfáum hárnálum er mun líklegri til að vera heppilega óformleg en ef þú ert með 250 stk. í hausnum.
- Ef þú hefur krullað hárið skaltu ekki vera feimin við að renna með bursta í gegnum hárið og greiða krullurnar aðeins úr. Eins er gott að krulla hárið áður en þú til dæmis málar þig, svo hárið hafi tækifæri til að jafna sig aðeins áður en þú heldur út. Þá eru minni líkur á því að þú lítir út eins og veðurfréttakona frá Texas.
- Að verða fyrir innblæstri af myndum af frægu fólki er allt í góðu, en ekki gera það að fyrirmyndinni. Það er frábært að gera sína útgáfu af Bridget Bardot hálf-uppgreiðslunni, en ekki ætla þér að líta nákvæmlega út eins og hún. Erfðarfræðilega séð er það bara ekki hægt.
Slakaðu á og leyfðu hárinu að njóta sín í sínu náttúrulega útliti. Njóttu þess að sleppa takinu á fullkomnunaráráttunni og drífðu þig út að gera eitthvað skemmtilegra en að rífast við sléttujárnið… Hér eru nokkrar afslappaðar hárgreiðslur:
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.