Ég fékk þá ljómandi góðu hugmynd fyrir um það bil mánuði síðan að klippa mig stutt.
Ég er að ljúga þegar ég segi að hugmyndin hafi verið ljómandi góð. Nei, hún var ein sú versta. Hvílík fljótfærni að fjarlægja næstum rasssítt hár á einu bretti.
Ég var skoppandi kát daginn sem ég gekk út af hárgreiðslustofunni. En dagana á eftir var ég meira bara svona. Eins og strákústur um hárið og almennt ljót. Fyrir utan hvað stutta hárið gerir mig feita á myndum. Ég má nú ekkert við neinni viðbót þar sko. Í stuttu máli – klippingin fór mér ekki og ég var ekki hamingjusöm.
Amma skildi heldur ekki upp né niður í þessum framkvæmdum mínum. Sagði síða hárið fara mér betur og það gerði útslagið. Ég varð að fá hár. Amma mín veit sínu viti.
Já. Ég fékk mér hárlengingar. Það má vera að það séu skiptar skoðanir á slíkum verknaði en mér er alveg sama. Mikið sem mér líður betur. Ekki lengur eins og ljótum, skegglausum karlmanni. Jú og feitum í þokkabót. Ég er alltof breiðleit og búsældarleg fyrir stutt hár.
Ég nældi mér í hárið hjá Hárlengingar.is sem staðsett er á Grensásvegi 16. Þau hafa verið í þessum bransa í næstum 11 ár þannig að þau kunna sitt fag. Hjá þeim er nánast hægt að fá alla heimsins hárliti, slétt hár, krullað hár – nefndu það. Ekki er verra að starfsfólkið þarna er dásamlega viðkunnalegt og brýndu þau endalaust fyrir mér að ef ég þyrfti einhverja aðstoð eða upplýsingar þá væru þau við símann til tíu á kvöldin.
Ekki amaleg þjónusta – það er nefnilega ekkert ósennilegt að ég eigi eftir að þurfa hjálp með þetta fína hár mitt. Ég er þekkt fyrir að rústa flestu sem ég fer með puttana í. Hárið verður ekkert þar undanskilið.
Ég er ferlega ánægð með nýfengið hár. Ég mæli með ferð á Grensásveginn ef þig þyrstir í síðari lokka.
Guðrún Veiga er mannfræðingur að mennt. Týpískt naut, kann vel að meta veraldleg gæði og þrjósk með eindæmum, fagurkeri og eyðslukló.
Naglalökk eru hennar helsti veikleiki og líkamsrækt stundar hún ekki en viðheldur brennslunni með óhóflegri kaffidrykkju.