Við á Pjattinu vorum aðeins að velta því fyrir okkur hvaða straumar og stefnur yrðu áberandi í hártískunni nú í vetur, – hvað er það sem koma skal?
Til að fá svarið leituðum við til Lenu Magnúsdóttur á Eplinu en hún er einstaklega fersk og fær þegar kemur að hári og fylgist vel með straumum og stefnum. Hún segir að í raun sé ekkert mikið nýtt í gangi þegar horft er til tískupallanna.
“Hárið er rosalega mikið bara slegið og skipt í miðju eða tekið upp í snúða en það má segja að öllu líflegri stefna sé í litum. Nýji liturinn í hári er gulur, og blár eða grænblár og það hefur verið svolítið um bleikan í vor og sumar. Villtar krullur eru líka algerlega málið, STÓRT HÁR. Bob klippingin hefur verið mikið áberandi þetta árið í öllum stærðum og gerðum. Með styttum, alveg þungir og í öllum litum og síddum,” segir Lena og spáir þeim áframhaldandi vinsældum enda mjög klassískir.
“Þetta er líka yfirleitt fyrsta ‘stutta’ klippingin sem stelpur þora að fara í úr alveg síðu hári, svo taka þær þetta skefinu lengra næst og fara þá styttra. Ég hugsa að það verði meira um stuttar töff klippingar í vetur heldur en við höfum séð í sumar,” segir Lena að lokum.
Hér fyrir neðan má sjá smá myndasafn af bláum, gulum og bleikum lit í hári ásamt stórum og flottum krullum. Líflegt og skemmtilegt… Spurning bara hvort margar þori?
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.