Ég er með liðað hár. Margar vinkonur mínar dauðöfunda mig, en engin þeirra hefur séð þessa “fögru lokka” mína þar sem að ég blæs og slétti á hverjum degi.
Ástæðan fyrir því að ég lofa ekki liðunum að njóta sín er sú að þeir hafa sjálfstæðan vilja. Ef ég sleppi því að blása og slétta kemur kannski einn fallegur liðaður lokkur, en restin verður eins og ég hafi stungið puttanum í rafmagnskló eða túberað hárið vandræðalega illa.
Það segir sig sjálft að það fer ekkert sérlega vel með hárið að slétta og blása á hverjum degi. Endarnir slitna og hárið verður þurrt.
Þar af leiðandi á ég ósköpin öll af allskonar vörum sem áttu, samkvæmt auglýsingum, að gera ótrúlega hluti, með mjög misjöfnum árangri.
Ekki fyrir löngu var mér bennt á olíu sem mundi gera kraftaverk, og ég er mjög hrifin af kraftaverkum þannig að auðvitað keypti ég þessa kraftaverkaolíu. Og viti menn, það var bara ekkert verið að plata mig!
Þessi undraolía heitir Mythic Oil og er frá L´oréal.
Ég er með meðalsítt hár og set sirka tvo dropa í rakt hár áður en ég blæs það og stundum splæsi ég auka dropa eftir blástur og slétti af gömlum vana. Ég var bara búin að nota þessa olíu í nokkra daga þegar að ég sá ótrúlegan mun. Hárið orðið silkimjúkt og gljáandi. Og það sem meira er, ég er farin að gefa sléttujárninu frí stöku sinnum sem hefur ekki gerst í mörg ár.
Í gegnum tíðina hef ég keypt allskonarolíudropa sem oftar en ekki virðast húða hárið og gera það fitugt. En ekki þessi, sei sei nei. Hárið virðist drekka olíuna í sig og segja bara takk kærlega fyrir mig og blómstra! Ég er búin að eiga þessa olíu núna í tæplega hálft ár, nota hana á hverjum degi og er ekki hálfnuð með hana, notadrjúg og dásamlegur ilmur.
Af heilum hug get ég mælt 100% með Mythic Oil og get lofað þér því að þú verður ekki fyrir vonbrigðum.
Hér skrifar pjattrófan Viktoría um þessa undraolíu…
Guðrún Hulda er flugfreyja sem hefur stundað nám við félagsfræði og félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Hún er fagurkeri og nautnaseggur sem hefur gaman af öllu því sem gleður augað, eyrað, kroppinn, andann og sálina. Guðrún er vog.