Það er alltaf erfitt ferli að fara úr dökku hári yfir í ljóst.
Það má ekki gera það of fljótt því þá skemmum við hárið auðveldlega og þetta þarf að gera í nokkrum hollum og getur hárið verið ansi ljótt í millitíðinni. Gult hár er oftast útkoman.
En það er til auðveld lausn við gulu hári.
Fjólublátt sjampó!
Mörg snyrtifyrirtæki framleiða sjampó sem eiga að gera hárið ljósara og blablabla.. Ég hef prófað þetta allt saman og mér finnst ekkert virka nema sjampóið sé fjólublátt. Því dekkra því betra!
Sjampóið sem ég er að nota er nánast svart á litinn og það virkar líka mjög vel. Það þarf ekkert endilega að kaupa dýrustu merkin. Ég keypti mitt (frá Lee Strafford) í Hagkaup á 1.500 kr. sem er mjög vel sloppið.
Ef maður vill mikinn árangur strax er ekki nóg að nota sjampóið daglega þegar maður er í sturtu. Það sem ég geri:
Rétt bleyti hárið svo það sé rakt (alls ekki blautt!). Set svo slatta af sjampóinu í hárið en passa að það freyði ekkert. Læt það svo bíða í um það bil hálftíma og þvæ svo úr. Eftir 2 skipti sá ég virkilega mikinn mun á hárinu. Gott er að gera þetta sirka tvisvar í viku.
Stella Björt útskrifaðist úr Borgó 2010 og starfar nú sem verslunarstjóri í Topshop í Smáralind. Þess á milli tekur hún að sér stílistaverkefni og hefur tekið námskeið í stíliseringu í London College of Fashion en stefnir á fullt nám þar í framtíðinni. Stella er tvíburi.