Hvernig stendur á því að sumt fólk og upplifanir vekja með okkur vellíðunarstrauma og gera okkur jafnvel bara frekar hamingjusöm?
Einn af stærstu þáttunum í þessu eru einfaldlega hormónarnir í okkur, boðefnin í heilanum sem hafa sterk áhrif á það um hvað við hugsum, hvað við gerum og hvernig við bregðumst við allskonar aðstæðum eða upplifum hluti.
Fjögur hamingjuhormón
Það eru fjórar gerðir hormóna sem framkalla vellíðan hjá okkur og þessar “feel good” tilfinningar og upplifanir. Þessi hormón ballansera okkur og það besta er að við getum sjálf aukið framleiðslu þessara boðefna með því sem við gerum og veljum, eða truflað hana.
- Endorfín – Virkar fyrst og fremst til að díla við streitu og sársaukatilfinningar
- Serotonin Hefur jákvæð áhrif á líðan og ánægju
- Dopamin Nautnaboðefnið sem sprettur t.d. fram þegar okkur finnst við hafa áorkað einhverju
- Oxytocin Tengingar, ást og traust
DÓPAMÍN
Á ensku er þetta kallað reward chemical og það sprettur upp þegar við gerum eitthvað sem okkur finnst gott. Það getur t.d. verið að borða góðan mat, hlusta á næs tónlist, fá nudd, stunda kynlíf eða ljúka góðri æfingu í ræktinni. Dopamin færir okkur vellíðan og örvar okkur til að gera hluti sem við njótum þess að gera og gerum vel.
SERÓTÓNIN
Serotonin í æskilegu magni dregur úr áhyggjum og jafnar skapgerðina ásamt því að gera okkur glaðari. Framleiðsla þess eykst náttúrlega þegar við gerum hluti sem við getum gert á hverjum degi. Þetta geta verið hlutir eins og að fara út að ganga, sofa vel, vera í náttúrunni eða annað “self care” sem dregur úr stressi.
ENDORFÍN
Endorfín eru framleidd af miðtaugakerfinu til að hjálpa okkur að díla við líkamlegan sársauka. Þau losna út í heilann sem viðbragð við sársauka eða streitu, en það sem betra er… þau koma líka við kynlíf, líkamsrækt og þegar maður borðar góðan mat.
Íþróttafólk veit allt um áhrif endorfíns enda tala þau gjarna um endorfín kikk þegar þau ýta sér aðeins lengra en þau ættu að komast í ræktinni eða sportinu.
OXYTÓSÍN
Oxytocin hefur verið kallað ástarhormónið og það merkilega er að rannsóknir hafa sýnt að það virðist skipta konur meira máli en karla að hafa nægilegt magn af því í kerfinu. Oxytocin framkallast til dæmis með ástúðlegri snertingu og þegar maður umgengst fólk sem elskar mann og maður treystir.
Þetta hormón örvar líka framleiðslu á serotonin og dópamíni sem gerir það alveg extra gott. Svo dregur það úr kvíða.
5 LEIÐIR TIL AÐ AUKA HAMINGJUHORMÓNIN
Heilinn í okkur er víraður saman í gegn um þær upplifanir sem við eigum. Taugakerfið myndar tengingar út frá reynslum og því oftar sem við upplifum sömu hlutina, því þéttari verða tengingarnar.
Lífsreynslan, eða það sem þú hefur farið í gegn um í lífinu, hefur forritað þig þannig að boðefni í heilanum framkallast við ákveðnar aðstæður. Þetta gerist hratt þegar við erum börn en eftir að komið er á fullorðinsár verður ekki jafn auðvelt að mynda nýjar innspýtingar.
Til að nýjar rásir myndist þarf miklar endurtekningar af því sama og þess vegna skaltu prófa að finna þér nýjan vana og endurtaka svo aftur og aftur og aftur þar til hann verður þér jafn eðlislægur og gamlar venjur. Við þetta verður þú hamingjusamari.
Dópamín
Við vitum að dópamín eykst þegar þú gerir eitthvað vel. Þess vegna skaltu venja þig á að gera það reglulega. Að ná settu markmiði eða að standa sig vel í vinnu gefur þér gott skot af dópamíni og lætur þér líða vel.
Önnur leið til að auka á framleiðslu dópamíns er að gera eitthvað gott fyrir aðra. Vertu því greiðvikin/n og hjálpaðu fólki sem þarf á því að halda. Þér líður vel ef þú gerir það.
Serótonin
Það eru nokkrar leiðir til þess að örva náttúrulega framleiðslu serótónins. Ein leið er að vera úti og alltaf þegar sólin lætur sjá sig. Öllum líður betur á sólardögum. Svo skaltu vinna í því að byggja upp trú á sjálfum eða sjálfri þér. Allir fara í gegn um sigra og mistök. Ef þú einbeitir þér að öllu sem mistekst þá dregur þú úr framleiðslunni en ef þú venur þig á að minna þig á allt sem þú gerir vel, litla sigra, allskonar sigra, þá líður þér smátt og smátt betur. Hvað gerði ég vel í dag? Þessu skaltu svara á hverju kvöldi. Stundum er það sigur að fara út í búð. Eða setja í vél.
Hressandi tíu mínútna göngutúr gerir líka góða hluti fyrir andann. Hreyfing eykur á serótónin þannig að því meira sem við gerum af því, því betra. Tuttugu til fjörutíu mínútur munu gefa þér ótrúlegan hjarta og heilsufarslegan ávinning líka.
Rannsóknir hafa einnig leitt í ljós að neysla matvæla sem innihalda “tryptófan” eykur serótónín. Matvæli sem eru ofarlega í tryptófani eru kjúklingur, egg, ostur, fiskur, hnetur, grasker, sesamfræ, mjólk og kalkúnn.
Endorfín
Hreyfing er enn og aftur leiðin. Að verða “high” af hreyfingu er alveg raunveruleg upplifun. Svo má líka auka það með hlátri og gettu nú… teygjum, eins og t.d í jóga.
Oxýtósín
Oxýtósín losar þú út í blóðrásina með því að gefa og taka á móti ást í öllum sínum myndum. Einnig með því að hugsa vel um þig með því að fara í jóga, nudd, hugleiðslu og hlusta á tónlist. Góð samtöl við vini og fjölskyldu hjálpa líka og svo bara að knúsa kisuna sína eða voffann. Eða bæði.
Það er svo margt sem þú getur gert til að láta þér líða betur og bæta ánægju þína af lífinu. Hamingjan er í hendi þér – og heila. Svo jafnvel þó náttúruleg tilhneiging þín sé meira í þyngri kantinum þá getur þú valið að gera hluti sem hjálpa þér að öðlast bjartara og betra líf.