Það hefur löngum verið til siðs hér á Djöflaeyjunni að lána vinum og vandamönnum góðar bækur, eða þær sem hafa á einhvern hátt snert við strengjum í hjarta okkar, orsakað hlátur, gæsahúð, heillað okkur og jafnvel hrætt.
Ég segi og skrifa hátt og snjallt: Leggjum þennan ósið niður! Rithöfundar litlu eyjunnar okkar eiga þetta svo sannarlega ekki skilið. Kaupum bækur. Styrkjum og styðjum íslenska rithöfunda. Bótoxaði áhættufjárfestir: Kauptu bækur!
Næst þegar vinkona þín, bótoxaði áhættufjárfestirinn, sveipar um sig loðfeldinum í vetrarkuldanum þegar þið hittist á Laugaveginum og segir á innsoginu: ,,Gvöð, áttu nýjustu bókina hans Stefáns Mána, má ég fá hana lánaða?‘‘ Þá segir þú: ,,Nei. Kauptu hana sjálf.‘‘ Fólk, þetta er svona einfalt.
Það eru nokkur ár síðan ég uppgötvaði að það er eitthvað rangt við allan þennan lánslestur. Síðan hef ég ákveðið að kaupa alla vega eina bók eftir íslenskan höfund á aðventunni og mér verður hlýtt í hjartanu þegar ég geri það. Það er góð tilfinning að styrkja rithöfund. Ég skal alveg segja ykkur hvaða bók ég vel í ár: Stúlka með maga, eftir Þórunni Erlu-Valdimarsdóttur. Og svo styð ég jú Amnesty International mánaðarlega. Og bráðum Píratana.
Og ef þú hefur bara alls ekki efni á bók, halló?! Farðu á bókasafnið.
Hrund Hauksdóttir er blaðamaður, hljóðbókalesari, nautnaseggur og pjattrófa. Hún stundaði háskólanám í fjölmiðlun í Bandaríkjunum og félagsfræði við HÍ. Hrund ritstýrði Vikunni frá 2000-2002 og var eins konar partípenni sunndagsútgáfu Morgunblaðsins 2006-2009, þar sem hún skrifaði undir heitinu Flugan en undanfarin 6 ár hefur Hrund skrifað kynningarefni fyrir Frjálsa Verslun.
Nýjasta Pjattrófan er miðbæjarmaddama sem les bækur af ástríðu, stundum nokkrar í einu, enda er hún í tvíburamerkinu og skiptir hratt og auðveldlega um skoðun.