Ég var að koma heim af dýrðlegri danssýningu. Kúnstnerarnir Sigga Soffía og Jónas Sen smeygðu sér inn í flest skilningarvit mín þar sem ég sat í miðju Gamla Bíó og horfði/hlustaði dolfallinn á verk sem hún kallar FUBAR.
Dansarinn og danshöfundurinn Sigga Soffía er einstaklega gefandi mannvera. Hún bara strollar listinni út svo allir skilja hvað átt er við.
Í þessu samhengi finnst mér hún vera alþýðulistakona.
Við vitum öll að nútíma-danz (helst með zetu) flokkast sem hámenning. Sumir leggja bara hreint ekki í þetta, svo mikil á hámenningin að vera, en Sigga Soffía miðlar hámenningarlegu danslistinni þannig að hún verður fullkomlega skiljanleg og aðgengileg fyrir alla. Konur og kalla.
Maður fær alveg upplifun fyrir allann peninginn. Upplifun sem gleymist mikið, mikið, mikið síðar en kettlingavídeóið sem þú varst að skoða á Facebook rétt áður en þú last þennan pistil.
Ég fór með stelpunni minni sem er 12 ára á sýninguna og Edda var alveg heilluð. Reyndar er hún á listdansbraut hjá JSB og hafði þar af leiðandi kannski pínu “insider” vinkil á sýninguna. Engu að síður sagði hún að sýningu lokinni að þetta væri flottasta dansverkið sem við hefðum farið á til þessa og henni fannst Sigga Soffía gríðarlegur töffari sem er gott því það er frábært fyrir litla danspíu að finna hetju í eigin heimi. Henni fannst “isolated movements” hjá henni sérlega góðar. #fagmenn
Sýningin byrjaði á því að Sigga Soffía sagði skemmtilegar sögur af sjálfri sér. Sjálfinu sínu. Líkamanum sínum. Skiljanlegar sögur um hvernig það er að vera fáránlega kasólétt og geta ekki reimað skóna sína. Hvernig það er að fá mjög furðulega kláðasýki og þurfa að leggjast í fjólublátt piparmyntubað til að róa kláðann. Hvernig það er að vera geðveikislega hrædd í yfirþyrmandi aðstæðum. Hvernig það er að vera hrifin af gamalli gráhærðri konu sem reykir vindla. Hvernig það er að halda að maður sé að fara að fæða barn í Smáralind.
10.oktober 2014 – gat ég ekki reimað skóna mína því ég var svo ólétt, við vorum í Smárabíó og það var eins og einhver væri að reka skrúfjárn endurtekið niður fæðingarveginn, ég engdist um í sætinu að hluta til af sársauka en að hluta vegna tilhugsunarinnar um að ég myndi fæða barnið mitt í Smáralindinni…
Hún togaði okkur áhorfendur inn í líkamann sinn og tilfinningalífið sitt svo þegar dansinn byrjaði þá var maður mikið nánari henni og því sem hún hafði að segja með hreyfingum sínum. Og þvílíkar hreyfingar! Hvernig er svona bara yfirleitt hægt?
Tónlistina í FUBAR semur hinn ofur flínki tónlistarmaður Jónas Sen. Ekki nóg með það… hann hitar líka upp með Siggu í dansinum áður en allt fer á fljúgandi siglingu. Fyndið kombó þau tvö þarna á sviðinu. Hún í rauðum alklæðnaði og hann pínu þybbinn, spariklæddur með slaufu.
Tónlistin er það frábær að ég hugsaði, bókstaflega „Mig langar í diskinn”. Ég dansaði með fingrunum. Hefði eins viljað spranga þarna upp á svið til þeirra og taka svo „stage dive” – rosa peppuð… en það er víst ekki viðeigandi við svona aðstæður. Stundum þarf kona víst að halda sig á mottunni svokölluðu.
Ekki bara fyrir fólkið á mölinni
Nú fitja kannski sumar landsbyggðartúttur upp á nefið og hugsa með sér að svona lizt sé bara fyrir fólk í Reykjavík… en svo er nú hreint ekki. Sigga Soffía og Jónas ætla nefnilega að túra með hámenninguna um landið og þetta er planið:
27 október Gamla bíó Reykjavík
30 október Gamla bíó Reykjavík
2 nóv Airwaves tónlistarhátíðin Kaldalón Harpan
9 Nóvember Gamla bíó Reykjavík
13 Nóvember Gamla bíó Reykjavík
15 Nóvember Egilstaðir
16 Nóvember Egilstaðir
20 Nóvember Gamla bíó Reykjavík
26 Nóvember Rif
Janúar 2017 – Akureyri, Ísafjörður og Patró í mars.. (nánar síðar, íslendingar eru hvatvísir)
Ég skora á þig kæra vinkona að skreppa aðeins af Facebook og prófa að skella þér á þessa danssýningu. Hún er vel þess virði. Maður fær alveg upplifun fyrir allann peninginn. Upplifun sem gleymist mikið, mikið, mikið síðar en kettlingavídeóið sem þú varst að skoða á Facebook rétt áður en þú last þennan pistil. Ég sverða… Hættu nú á Facebook og snáfaðu á FUBAR. 😉
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.