Í hugleiðingum mínum um gyllinæðakrem sem hrukkubana lofaði ég því að bera hrukkukrem í kringum augun á mér í þeim tilgangi að ákvarða hvort eitthvað væri til í flökkusögunni um flugfreyjuna og gyllinæðakremið sem hrukkubana.
Nú hef ég samviskusamlega smurt gyllinæðakremi á augun á mér í tvær vikur og því miður get ég ekki séð mikinn mun, þær hrukkur sem hafa myndast í kringum augun á mér sitja sem fastast og harðneita að hreyfa sig. En mér finnst ég þó finna smá mun… Mér finnst húðin í kringum augun á mér vera öll mikið stinnari eitthvað, eins og einhver teygjanleiki hafi verið endurheimtur… Rannsóknin semsagt ekki algjör tímasóun!
En á þessum tíma hef ég samt sem áður gert stórmerkilega uppgötvun!
Gyllinæðakrem er greinilega með því mest græðandi sem hægt er að finna! Ég varð fyrir þeirri stórskemmtilegu lífsreynslu á meðan á “rannsókn” stóð að fá frunsu. Allir sem hafa fengið frunsur vita að það er alveg hundleiðinlegt og maður er tilbúinn að gera allt til að kvikindið láti sig hverfa sem fyrst!
Nú, ég ákvað að bera gyllinæðakremið góða á frekjuna á vörinni á mér, og innan skamms var kvikindið farið að huga sér til hreyfings! Það sem vanalega situr sem fastast í um vikutíma sem mikil andlitsprýði var horfið á tveimur dögum!
Nú fór ég að hlusta aðeins í kringum mig og þurfti ekki að leita langt áður en ég heyrði eina sögu af manni sem ég þekki. Hann fékk sér tattú sem er nú ekki í frásögur færandi nema fyrir það að það kom hrikaleg sýking í það. Hann bar á það gyllinæðakrem og sólarhring síðar var sýkingin alveg farin. Sama heimildarmanneskja sver og sárt við leggur að þetta krem sé snilld á brunasár!
Semsagt, að þó svo að gyllinæðakremið sé ekki sá hrukkubani sem sögur sverja, þá er það frunsubani mikill og græðir, hressir og kætir.
Hrafnhildur, eða Krummi, er mamma, förðunarfræðingur, leikkona, kærasta, systir, dóttir, handverkskona og listakona svo fátt eitt sé nefnt. Ung flutti hún frá Sauðárkróki til Reykjavíkur þar sem hún lærði förðunarfræði en seinna flutti hún til Alabama, USA þar sem hún lærði leiklist. Eftir nokkur ár í Bandaríkjunum lá leið hennar aftur til Sauðárkróks og hún er því rödd landsbyggðarinnar á meðan pjattrófa. Hrafnhildur er fædd 21. febrúar árið 1980 og er fiskur.