Undanfarið ár eða svo hef ég tekið eftir því að húðin á mér er að breytast. Ég hef náttúrulega oft í gegnum tíðina heyrt það að um og uppúr þrítugu breytist húðin, maður þurfi að fara að hugsa betur um hana og svo framvegis…
En samt sem áður komu þessar breytingar algjörlega aftan að mér, og ég er bara ekki heilskostar sátt við þær línur sem eru farnar að hóta hinu versta í kringum augun og teygjanleika sem á sama tíma hótar verkfalli!
Þær eru margar, vörurnar sem ég hef prófað, með misjöfnum en þó yfirleitt ágætis árangri -krem, maskar og afgangar úr ísskápnum. En flestar eiga þessar vörur það sameiginlegt að kosta hvítuna úr augunum og nafn frumburðarins, þannig að maður kannski tímir ekki, eða hefur ekki efni á að fjármagna þennan lúxus sem húðhirða er.
En um daginn mundi ég allt í einu eftir því að ég hafði heyrt því hvíslað einhverntímann að flugfreyjur nota gyllinæðakrem óspart undir augun á sér, og að vopnaðar túbunni góðu eru þeim hrukkulausum allir vegir færir!!
Ef maður hugsar út í það, þá meikar það fullkominn sens, svona miðað við það hvað þetta krem á að gera…
Ég skundaði sem leið lá inn í næsta apótek og bað kokhraust um túbu af gyllinæðakremi.
Nú eru liðnir 2 dagar, ekki nógu langur tími til að sjá mælanlegann mun, en ég mun á næstu dögum og samviskusamlega halda áfram að smyrja gyllinæðakremi í kringum augun á mér og mun svo láta pjattrófur Íslands vita hvort einhver sannleikur sé á bak við kredduna um flugfreyjuna og gyllinæðakremið.
Bíðið spenntar!
Hrafnhildur, eða Krummi, er mamma, förðunarfræðingur, leikkona, kærasta, systir, dóttir, handverkskona og listakona svo fátt eitt sé nefnt. Ung flutti hún frá Sauðárkróki til Reykjavíkur þar sem hún lærði förðunarfræði en seinna flutti hún til Alabama, USA þar sem hún lærði leiklist. Eftir nokkur ár í Bandaríkjunum lá leið hennar aftur til Sauðárkróks og hún er því rödd landsbyggðarinnar á meðan pjattrófa. Hrafnhildur er fædd 21. febrúar árið 1980 og er fiskur.