Rinng… rinng…..ggggg… Ég lá upp í sófa og horfði á sjónvarpið þegar besta vinkonan hringdi og bað mig vinsamlegast að drulla mér í gallann, hún væri að sækja mig á djammið og kæmi eftir þrjár!
Ohhh… svona er að eiga góða vini sem vilja manni svo vel en skilja bara ekki að ég er kannski löngu búin að gefast upp á því að kynnast manni á börunum.
Eintómir pappakassar helgi eftir helgi og stórkostlega lítið úrval. Ég hálfsá eftir því að missa af breskum spennuþætti en hressti mig svo við í skyndi.. og í djammfötin í hvelli, hviss bang og út.
Til að teljast gjaldgengur á djammi í Reykjavík er þó eitt skilyrði:
Þú þarft að vera eilítið kippó og þannig mátulega afslöppuð til að karlmenn þori að nálgast þig. Ég vil ekki alhæfa en það er mín reynsla að þegar dama er í glasi streyma til hennar boðsdrykkir og mjög margir menn þurfa að tala við hana.
Þá er líka gott ráð að hafa alltaf drykk í hendi, diet kók eða annað því þá koma karlmenn til þín að spjalla vitandi að þú ert ekki bara að nota þá til að fá ókeypis drykk. Hitt er svo annað að það er ekkert ljótara hér í bænum en sauðdrukkinn kvenmaður að nóttu til, nema ef vera skyldi sauðdrukkinn karlmaður -Því ber að varast vínið líka. Ef ég fer með öfgarnar alveg í þá áttina og er allsgáð leiðist mér hins vegar næturfólkið mjög mikið. Þetta röflar, af þessu leggur fýlu og mér finnst þetta líka óheflað, nærri ljótt.
Kvöldið verður í stíl við það.
Svo upp á punt þetta kvöld, hellti ég í mig og vonaðist eftir…tja, kraftaverki líklegast. Þau sem ég fann eru öll efni í litlar smásögur. Það var maðurinn sem settist hjá mér og fitjaði upp á samræðum:
„Þú ert falleg en samt svo ljót!!“
Ég nærri glaðvaknaði mitt í þessum mökki við þetta en maðurinn bætti þá við: „Mikið ertu með stórar tennur og rauðan varalit.“
Svona eru glæsimenninn hér í borg, eins og klippt út úr Rauðhettu og úlfinum.
Þau héldu líka áfram að daðra við dömuna. Áður en ég vissi stóð ég við barinn með drykk og myndarlegan enskan lögfræðing upp á arminn. Við skáluðum og mitt í ölæðinu pírði ég annað augað og sá þá skýrt að maðurinn var með hring. Er ég benti honum góðlátlega á þetta sá ég undir iljarnar á honum.
Hálfmiður mín yfir þeim örlögum að þurfa að skemmta mér og vera í makaleit í drykkjuborginni miklu, rauk ég út með eitt vonsvikið tár í augnhvarminum.
Líklegast var það drykkjan sem gerði mig svona sentimental.. ohhh – en þetta var að minnsta kosti flottur hringur!
(myndirnar eru af heimasíðu New York Post)
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.