Gúrka
Alltaf þegar ég segi orðið dettur mér í hug kona með grænar gúrkusneiðar á maskaklæddu andlitinu.
Ég hef aldrei sett gúrkur á augun á mér og þaðan af síður skilið af hverju það er gert. Nýlega uppgötvaði ég þó töframátt gúrkunnar.
Gúrkan hefur sérstaklega hreinsandi áhrif á húðina og líkamann, hún er í raun meiriháttar detoxari.
Gúrkur eru að mestum hluta gerðar úr vatni, þær innihalda góð C-vítamín og koffeinsýrur en hvorutveggja hjálpar til við að mýkja og lækna húðina, td. vegna kláða og bólgna. Gúrkur eru einnig trefjaríkt grænmeti og innihalda góð steinefni þar á meðal silica og magnesíum. Húðin ætti því að ljóma að innan ef þú borðar gúrkur!
Það er reyndar oft mælt með gúrkusafa ef líkaminn og húðin þarfnast steinefna. Þar sem gúrkur eru safaríkar eru þær náttúrulegur og hreint út sagt frábær rakagjafi fyrir húðina. Algert möst ef þú vilt að húðin þín ljómi af hreysti og fegurð. Gúrkur eru einmitt oft notaðar til að lækna ýmis húðvandamál eins og svo sem bólgur undir augum og sólbruna.
Gúrkurnar eru líka mjög trefjaríkar og öllum Pjattrófum meinhollar. Það er hreinn barnaleikur að bæta gúrkum inn í matseðil dagsins. Annað hvort í salati sem meðlæti með mat eða þá í æðislegum gúrkukokteil sem auk trefjanna inniheldur einnig gnægð steinefna og hollra C-vítamína og magnesíum. Rúsínan í pylsuendanum er að gúrkur eru líka blóðþrýstingslækkandi !
Nú hefst hver dagur á hálfri gúrku.
Henni er skellt í safavélina ásamt sellerístöngli og engiferrót. Út kemur nokkuð sérstakur drykkur, allra meina bót. Það er tilvalið að bæta gúrkum inn í matseðil dagsins yfir sumarmánuðina, sérstaklega þegar gúrkutíðin hefst. Gúrkur er reyndar hægt að kaupa allt árið en þær eru án efa bestar á bilinu frá maí og út ágúst. Og nú þegar vorið nálgast, viljum við ekki öll gúrka okkur upp til að skarta okkar fegursta?
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.