Fatahönnuðurinn og fagurkerinn Gianni Versace var margt en látlaus var hann ekki.
Þessi ástríðufulli ítali byggði upp Versace tískuveldið ásamt Donatellu systir sinni og var aldrei þekktur fyrir neitt nema það væri over-the-top, kynþokkafullt og helst baðað í gulli.
Árið 1997 var Gianni myrtur af ungum manni fyrir utan heimilið sitt í South Beach í Miami. Tískuheimurinn syrgði þennan mikla meistara og þó systir hans Donatella hafi haldið uppi fyrirtækinu allar götur síðan hefur útlit Versace aldrei verið jafn munúðarfullt og glæsilegt og þegar Gianni var á lífi.
Húsið sem Gianni Versace lést fyrir utan var keypt stuttu eftir andlát hans og notað sem hótel. Nú hefur húsnæðið, sem gengur undir nafninu Casa Casuarina, verið sett á sölu og því hefur þetta magnaða hús aftur komið í sviðsljósið.
Eignin sem er gríðarstór eða um 2.100 fermetrar, hefur 10 svefnherbergi, 17 metra sundlaug sem skreytt er með mósaíkhellum úr gulli, handmálaðar freskur í öllum loftum, fjöldamargar styttur, marmaragólf og gosbrunnar á hverju horni. Húsið var upprunalega byggt árið 1930 en Gianni, sem var einnig menntaður arkítekt, tók það í gegn fyrir um 33 milljónir dollara árið 1992.
Mögnuð eign sem sett er á 75 milljón dollara en verðið hefur verið lækkað talsvert eftir að erfiðlega reyndist að finna kaupanda.
Stílinn á Casa Casuarina hentar eflaust ekki öllum og uppsett verð líklegast ekki í verðflokki flestra en myndirnar eru magnaðar og gaman að sjá hvernig þessi ítalski fagurkeri hefur nostrað við hvern krók og kima í þessari ævintýralegu höll.
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.