Fegurðarsamkeppnir. Ég verð að segja að þær hafa aldrei verið fyrir mig. Augljóslega myndi ég rúlla þeim öllum upp en til að ýta ekki gervallri íslensku kvenþjóðinni út í klínískt þunglyndi hef ég haldið mig frá slíkum keppnum.
Hins vegar hafa fegurðardrottningarnar sjálfar ávallt vakið áhuga minn. Vissulega eru þær fallegar og í okkar samfélagi þykir það öfundsvert (láttu mig þekkja það) en hvernig ná þær að aðskilja semelíusteina kórónuna sem segir: Okkur finnst þú sætust þetta árið frá þeim sjálfum og þeirra persónu?
Ég gef mér þá forsendu að heilmargir komi fram við þær eins og hálfvita. Margar keppnir gera óeðlilegar kröfur til sinna fegurðadísa sem kannski fara ekki vel í hvern sem er.
Kröfur, pressa, kóróna, fólk sem heldur að þú sért fáviti; þú ert fegurst allra fljóða.
Á meðan öllu þessu stendur þarftu að halda maganum inni, brjóstunum úti og brosið skal ekki haggast þó að Kim Jong-Un kæmi askvaðandi inn með kjarnorkusprengju í Bónus-poka.
Því er mín tilfinning gagnvart þessum stúlkum oft sú að ég hugsa með mér hverskonar persónur þær beri og hvort karketerinn sé nægilegar þroskaður til að vega upp á móti krúnunni?
Ætli þær sér að nota sviðið á Hótel Íslandi sem stökkpall út í hinn stóra heim, hvað þurfa þær að hafa til að sigra þessa undirförulu glansveröld sem við köllum frægð? Að óska sér heimsfriðar og knúsa hvíta dúfu er víst ekki nóg.
Guðrún Bjarnadóttir mætir til leiks
Um daginn staldraði ég fyrir tilviljun við sjónvarpið þar sem verið var að sýna heimildarmynd á Rúv um fegurðardrottninguna og fyrirsætuna Guðrúnu Bjarnadóttir, eftir Maríu Sigrúnu Hilmarsdóttir og Guðmund Bergkvist .
Ólíkt mér þá er Guðrún ein hin yfirvegaðasta og glæsilegasta (líkt mér) kona sem ég hef augum barið. Guðrún stendur nú á sjötugu og lítur betur út en ég gerði á fermingardaginn minn (ég var líka óeðlilega vel heppnað fermingarbarn). Hún er fædd árið 1942 og alin upp í Ytri-Njarðvík. Árið 1962 var hún kjörin Ungfrú Ísland og ári seinna Miss International eða Fegursta kona heims.
Þann titil bar hún með réttu og af hverju þeir framlengdu honum ekki til æviloka er mér óskiljanlegt. Eftir það hóf Guðrún fyrirsætustörf og varð mjög farsæl á því sviði. Það var venja að þær stúlkur sem unnu fegurðarsamkeppnir á þessum árum skuldbundu sig til að gera allskonar hluti eins og að leika í bíómyndum.
Guðrún er þó gædd þeim eiginleika að ekki er hún aðeins stókostlega falleg manneskja heldur er hún með bein í nefninu og fyndin í þokkabót (eins og ég).
Hún afþakkaði það að láta til síns taka á hvíta tjaldinu af þeirri einni ástæðu að hún einfaldlega ,,hafði enga hæfileika á því sviði”.
Það má því segja að hógværðin sé Guðrúnu leikin og hún talar um líf sitt í heimildarmyndinni af mikilli yfirvegun og laus við allt sem heitir sjálfumgleði (ólíkt mér). Í myndinni kemur hún meðal annars inn á að hún átti að skrifa undir hinar og þessa samninga sem skuldbundu hana í margar áttir.
Neitaði að skrifa undir
Guðrún, verandi ákveðin og ómeðvirk, neitaði að skrifa undir og gekkst aðeins við þeim málum sem hentuðu henni. Hún hugsar með sér hvað margar stúlkur komi þarna inn, nýkrýndar og ringlaðar, réttur penni í hönd og sagt að kvitta undir samning sem alveg eins gæti hljóðað upp á hvað sem er.
Upp að þessum tímapunkti höfðu Guðrún og þær sem komu á undan henni og eftir, þurft einungis að láta reyna á fegurðina en á þessu augnabliki er það spurning um að vera maður eða mús. Það sem fylgir eftir , hvort sem að það heitir fyrirsætustörf, Hollywood, kokteilboð með hinum ríku og frægu, aðgengi að allskonar nautnum, þá stendur framtíðin og fellur með því að þær séu með rammsterkan persónuleika.
Hispurslaus og hreinskilin
Ég mæli eindregið með þessari heimildarmynd þar sem þau María Sigrún og Guðmundur fylgja Guðrúnu eftir, meðal annars um Parísarborg þar sem Guðrún hefur aðsetur.
Þar situr hún ýmist á kaffihúsum eða litlum torgum og segir frá því sem á daga hennar hefur drifið, bæði um hið góða og slæma en hún er alltaf skemmtileg, hispurslaus og hreinskilin.
Orð og háttarlag Guðrúnar hafði mikil áhrif á mig og ég er ekki frá því að í dag er ég örlítið settlegri. Þetta með hógværðina er þó ennþá verk í vinnslu.
Myndina má horfa á hér.
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.