Guðni Gunnarsson Rope Yoga og markþjálfi er mörgum kunnur fyrir sína frábæru heimspeki sem byggir á því í grunninn að hver sé sinnar gæfu smiður.
Guðni er mikil fyrirmynd þegar kemur að því að velja sjálfur og hafna hvað gerist í lífnu, hann er frábær lífþjálfi, eða ‘life-coach’ sem meðal annars hefur unnið með frægum leikurum og forstjórum í Los Angeles, hefur gefið út bækur og æfingakerfi og á og rekur Rope Yoga stöðina í Engjateig. Sumir myndu segja hann sérvitran, okkur finnst hann svalur. Guðni deilir hér með lesendum Pjatt.is hvernig hann fer að því að hlúa að eigin heilsu og efla sál og líkama.
Hvað gerir þú helst til að halda góðri heilsu?
Allt sem ég veiti athygli vex og dafnar. Ég tel að góð heilsa sé fjársjóður hvers og eins og ver ég því bæði tíma og fjármunum í að rækta þann garð. Í því felst að næra mig af kostgæfni með vönduðum og helst lífrænum matvælum og fæðubótaefnum ásamt því að næra ásetning minn og tilgang, vitandi að allt sem fer innfyrir mínar varir nærir annaðhvort vansæld eða velsæld. Ég vanda hugsanir mínar og tel blessanir daglangt. Einnig gæti ég þess að hvíla mig vel og vinna úr því álagi sem ég færi mér í fang hverju sinni.
Hvað hreyfirðu þig oft í viku og hvernig?
Ég hreyfi markvist mig á hverjum degi og að meðaltali tvisvar á dag. Ég er svo lánsamur að starfa við heilrækt og lífsráðgjöf og nota því líkamann mikið við kennslu á hverjum degi ásamt því að stunda öndunnar og hugleiðsluæfingar við upprisu á hverjum morgni.
Hverju finnst þér auðvelt að sleppa og hvað gætirðu aldrei gefið upp á bátinn?
Ég veiti því aðeins athygli sem ég framkvæmi þ.e. hug og heilsurækt. Ég stunda ekkert líkamlegt eða andlegt ofbeldi. Það er ekki hægt að breyta eða bæta líkamlega eða andlega heilsu með steittum hnefa eða öðrum öfgum. Það er hins vegar leikur einn með kærleik, ummhyggju og gleði.
Hreinlæti og smekksemi skipta mig máli þ.e. að klæða sig þægilega og siðsamlega.
Hvað færðu þér í morgunmat og á milli mála?
Fyrst er það lýsi á fastandi maga. Eins og stendur þá er ég að neyta drykkjar sem inniheldur: blómafrjókorn, mulin hörfræ, lecithin korn og grænt jurtaduft í trönuberja safa og einnig vitamín blöndu sem breytist við árstíðar. Þegar þetta er komið í minn blíða belg þá fæ ég mér tvöfaldan expresso og Walsa hrökkkex með t.d. mjúksoðnu eggi, tómötum og smá pipar.
Í milli mál á morgnanna fæ ég mér chia graut frá Sollu á Gló og í eftirmiðdags mál er það yfirleitt hrökkkex frá Walsa með tómötum og eggjum eða jafnvel lamba lund.
Og hér er svo komið að girnilegri uppskrift frá Guðna
Grillað lamba rib eye með salati og sætum kartöflum.
Kjötið er kryddað með blóðbergs salti, svörtum pipar og kryddi lífssins frá pottagöldrum. Kjötið er grillað á háum hita í ca 8 mínútur á hlið og síðan látið standa í 5 til 10 mín fyrir neyslu.
Salatið er helst lífrænt og saman stendur af grænu laufi, því sem lítur best út hverju sinni. Ég nota t.d. oft klettasalat. Paprika yfirleitt gul og rauð eða appelsínugul, avakado, rauður laukur, og smáir tómatar. Ég sker allt grænmeti smátt. Kreysti síðan hálfa lime yfir og pipra léttilega.
Þegar salatið er komið á disk á dreyfi ég feta osti létt á salatið. Sætu kartöflunnar eru skornar í flysjur settar í eldfast mót og aðeins vættar í góðri ólifu olíu, smá sjávarsalt og pipar. Síðan bakaðar þangað til topparnir brenna aðeins. Síðan er maturinn blessaður og kindinni þakkað áður en þessi mikilvæga athöfn þ.e. að næra sig hefst. Svo tygg ég í ræmur og gæti þess að borða nægilega lítið.
Skiptir máli að vera töff í ræktinni? Áttu þér uppáhalds línu í íþróttafötum?
Hreinlæti og smekksemi skipta mig máli þ.e. að klæða sig þægilega og siðsamlega. Ég nota Hummel og Lulu Lemon fatnað mest og geng eingöngu í bómull.
Nefndu eina konu eða karl sem þér finnst hreint afbragð þegar kemur að heilsusamlegum lífsstíl.
Jafnvægi er til fyrirmyndar og dettur mér í hug sonur minn Þór Guðnason þjálfari á Nordica Spa. Einnig er Sólveig Eiríks á Gló mikið ljós.
Hvort ertu meira fyrir lífrænan lífsstíl eða prótein og lyftingar?
Ég er meira fyrir lifandi næringu og lífrænan mat heldur en duft og eyðilagðan mat. Ég geri mér far um að neyta lífrænna matvæla og næri mig mikið á Gló eða versla hjá Bændum í bænum, Nethyl 2.
Ertu með einhver ný markmið þegar kemur að heilsunni?
Enginn ný markmið en stöðugt að rækta garðinn minn og hvetja þá afurð og ljós sem líkami minn framleiðir. Þegar áhugi og áreiti dvína þá minkar starfsemi líkamans og afköst. Markmið mitt er að halda áfram að yngjast með aldrinum og það geri ég best með því að stunda Rope Yoga heilrækt.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.