Ég er ein af þeim konum sem elska dekur og þessvegna læt ég það eftir mér annað slagið.
Þegar við vinkonurnar teljum okkur hafa staðið okkur vel finnst okkur tilvalið að fara saman í svona dekur. Þetta er frábær stelputími og eitthvað sem er æðislegt að gera með vinkonum.
Um síðustu helgi fór ég í eina svona dásemdarferð og lá leiðin í þetta sinn í Blue Lagoon Spa í Álfheimum þar sem ég fékk eitt það besta nudd sem ég hef farið í um ævina.
Sú sem ég átti tíma hjá heitir Jóhanna. Hún er algerlega yndisleg og hreint út sagt frábær í sínu starfi. Ég valdi að fara í nærandi þörungarmeðferð sem lýsir sér þannig að ég var fyrst skrúbbuð með Blue Lagoon salti og olíu sem hreinsar burtu allar dauðar húðfrumur og endurnýjar efsta lag húðarinnar. Því næst var líkaminn vafinn í nærandi Blue Lagoon þörungavafning og ég vafinn inn í hitateppi í sirka 20 mínútur. Á meðan voru fætur mínir nuddaðir. Mér fannst alger snilld að vera ekki skilin eftir í teppinu… heldur er dekrað við mann með fótanuddi á meðan..ohh.. yndi!
Meðferðin endaði á slakandi Blue Lagoon nuddi fyrir andlit, hársvörð og líkama og loks var andlistmaski og nærandi krem borið á andlitið. Að þessu loknu ertu skiljanlega endurfædd, stinnari þar sem þú átt að vera stinnari og innilega afslöppuð í sálinni.
Nærandi þörungameðferðin var algerlega frábær meðferð sem ég mæli heilshugar með. Ég fór heim fislétt, afslöppuð og algerlega endurnærð og hlakka virkilega til að fara til hennar Jóhönnu aftur. Svo má ekki gleyma því að svona nuddmeðferðir eru alveg frábærar gjafir þegar fólk á afmæli eða hefur staðið sig vel í einhverju… eða bara við hvaða tilefni sem er.
Díana Bjarnadóttir útlitsráðgjafi og stílisti hefur margra ára reynslu við að aðstoða fólk með fataval. Hún starfaði meðal annars á Ítalíu og í London þar sem hún var stílisti stjarnanna hjá Giorgio Armani og Gucci.
Hefur einnig verið búsett í svíþjóð, Hollandi og á Selfossi en býr nú í Reykjavik. Díana er einnig með menntun í förðunarfræði. Greinar og ljósmyndir Díönu hafa m.a. verið birtar í tímaritunum Veggfóður, Ský og Smáralindarblaðinu. Díana er fædd 1. maí og er því naut.