Guðbjörg Finnsdóttir íþróttakennari og þjálfari er talin meðal þeirra bestu á landinu.
Hún hefur áralanga reynslu af því að koma fólki í form en í dag rekur hún G-Fit heilsurækt í Garðabæ auk þess að kenna leikfimi í Háskóla Íslands. Hér fræðir hún okkur um sinn eigin lífsstíl og heilsurækt og gefur meðal annars uppskrift að mjög girnilegri súpu sem hægt er að frysta og fá sér af og til.
1. Hvað gerir þú helst til að halda góðri heilsu?
Þjálfun er hluti af mínum lífsstíl og ég stunda hreyfingu allan ársins hring, ég passa upp á hollustuna og reyni að fá nægan svefn. Ég rækta markvisst jákvæðni með mér og finnst gaman að smita hana frá mér ☺ Jákvæðni hefur endalaust góð áhrif á heilsuna.
2. Hvað hreyfirðu þig oft í viku og hvernig?
Ég hreyfi mig sex daga vikunnar með því að kenna í G fit heilsuræktinni minni og kenni svo leikfimi við Háskóla Íslands. Ég nýt þess að kenna og grúska í öllu sem viðkemur að þjálfa líkamann á sem bestan hátt.
3. Hverju finnst þér auðvelt að sleppa og hvað gætirðu aldrei gefið upp á bátinn?
Ég get auðveldlega sleppt öllu sem heitir flögur, franskar og skyndibitamat, finnst það einfaldlega ekki gott en ísinn er alltaf jafn góður og verður að vera reglulega á boðstólnum.
4. Hvað færðu þér í morgunmat?
Ég byrja á því að fá mér ½ sítrónu kreista í vatnsglas og svo er það létt abmjólk með grófum flögum, tek vitamin, hveitikímolíu og lýsi. Svo er það græni drykkurinn fljótlega í framhaldi af því.
5. En á milli mála?
Hafragrauturinn klikkar aldrei og verður að vera einhversstaðar á hverjum degi hjá mér. Chiagraut er auðvelt að gera og hafa tilbúinn í ísskáp. Epli gríp ég með mér og nokkrar möndlur. Stundum er gott að fá sér orkustöng og vil ég þá helst raw.
6. Geturðu gefið okkur eina góða og einfalda uppskrift að einhverju heilsusamlegu?
Þessa grænmetissúpu geri ég mjög oft og gott að gera í magni. Þessi er hrikalega góð fyrir kroppin.
1 sæt kartafla
1 poki íslenskar gulrætur
1 rauðlaukar
1 laukar
1 hvítlaukar
1 blaðlaukur
1 rauð paprika
1 kúrbítar
ca 1 lítri af vatni
2 msk Sollukraftur
cayennepipar
cumin
kóríander
2 msk Sollu tómatpúrra
1 krukka Sollu tómatar
1 dós kókosmjólk
1/2 líter tómatsafi
Sweet chilli sauce ca 1-2 msk
Allt grænmetið skorið. Sætar kartöflur og gulrætur mýktar í olíu, lauk bætt við ásamt sjóðandi vatni. Grænmetiskrafti bætt út í ásamt rest af grænmeti og látið malla ca 15 mín. Tómatsafa ásamt Sollu sósum bætt út í, kryddað e smekk. Enn látið malla í ca 15 mín. Kókosmjólk bætt út og hitað ca 5 mín. Stundu bæti ég við kjúkling, sérstaklega um helgar. Klettasalat toppar svo súpuna þegar hún er borin fram. Súpan geymist rosalega vel í kæli.
7. Skiptir máli að vera töff í ræktinni? Áttu þér uppáhalds línu í íþróttafötum?
Það er aukaatriði en þegar þú ert komin af stað þá er gaman að verðlauna sig fyrir góðan árangur og dressa sig í flott æfingaföt. Casall fötin hafa verið mín uppáhaldsföt síðan ég man ekki hvenær. Það sem ég elska við þau eru gæðin og það fá allir eitthvað við sitt hæfi.
8. Nefndu eina konu eða karl sem þér finnst hreint afbragð þegar kemur að heilsusamlegum lífsstíl.
Það er erfitt að nefna eina en hvað varðar þjálfun á öfgalausan hátt eins og ég hef alltaf reynt að fylgja eftir þá er það Ágústa Johnson. Og svo finnst mér dásamlegt að fylgjast með kraftinum hennar Sollu í grænu matargerðinni þar sem ég er alltaf að sjá eitthvað nýtt og spennandi.
9. Hvort ertu meira fyrir lífrænan lífsstíl eða prótein og lyftingar?
Ég er meira fyrir lífrænan lífsstíl en nota prótein í hófi, finnst t.d. mjög gott að setja 1 msk af vanillupróteini út á hafragrautinn minn. Er ekki mikið fyrir prótein sjeika, þeir grænu gefa mér miklu meira.
10. Ertu með einhver ný markmið þegar kemur að heilsunni?
Að halda góðu formi er vinna og það er ákveðið markmið. Ég þarf td. alltaf að minna mig á að hvað svefninn er mikilvægur en með þroska og aldri þá er þetta allt saman að koma hjá mér!
Við þökkum Guðbjörgu kærlega fyrir viðtalið og heilræðin! Kíktu á FB síðu G-Fit í Garðabæ HÉR.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.