Ég var að klára Grimmd eftir Stefán Mána í gærkvöldi. Hef ekki lagt hana frá mér síðan ég byrjaði á fyrstu blaðsíðu… eða svo gott sem.
Þetta er fyrsta bókin sem ég les eftir þennan úbertöffara en áður hafði ég séð myndina Svartur á leik og fannst hún firnagóð.
Stefán hefur einstakt lag á að lýsa illa gerðum og gefnum glæpamönnum en þeir eru ríflega helmingur sögupersóna í Grimmd enda fjallar sagan um siðlaust fólk, – og svo aðalpersónuna William Smára Clover sem er vissulega siðlaus en þó þannig týpa að maður hefur meiri samúð með honum en öðrum. Líklegast vegna þess að í upphafi sögunnar fá lesendur innsýn í æsku drengsins og eftir þann lestur sér hver maður að þessi andhetja átti aldrei séns á öðru en að verða vandræðapési. Þvílík ömurðar æska.
Grimmd er hröð og taktföst saga. Hún er vel skrifuð líka. Á köflum varð mér hugsað til Stephens King sem ég hef miklar mætur á. Stefán nafni Kings er nefninlega fantagóður sögumaður líka, fléttan í sögunni er sterk eins og kaðall og karakterarnir mjög sannfærandi.
Mér fannst líka frábært að lesa sögu sem gerist öll í mínu umhverfi og samtíma. Ég er líka með hana á hljóðbók (guð blessi hljóðbækur) og þótti mögnuð tilviljun að keyra eftir Ægissíðunni á nákvæmlega sömu sekúndum og húsunum í götunni er lýst í smáatriðum í sögunni.
Eitt truflaði mig þó aðeins en það var hvað allar persónurnar í sögunni eru duglegar að ‘smella í góm’. Þessi lýsing er frekar ofnotuð. Kemur undarlega út líkt og ef fólk væri stöðugt að ‘draga augað í pung’ sem gerist þó bara einu sinni. Gómsmellir eru hinsvegar svo tíðir í samtölum sögupersóna að maður gæti eins trúað að þær töluðu á Swahili. Svo verður þetta bara fyndið og auðvitað fyrirgefið af því sagan er svo spennandi.
Um margt minnir Grimmd mig á fléttu í spennumynd frá Suður-Kóreu en á þeim hef ég miklar mætur. Þar eru aðalpersónur vanalega andhetjur, flest kemur á óvart og yfirleitt alltaf eru lítil börn í lífshættu því fátt fær okkur til að kreppa tærnar meira en tilhugsunin um að einhver komi til með að skaða lítinn sakleysingja. Þetta svínvirkar.
Ég mæli með Grimmd.
Hún grípur þig á fyrstu blaðsíðu og heldur þér á baki meðan fléttan þeysir áfram með þig um ógnvekjandi heima siðspilltra íslenskra karlmanna sem svífast nákvæmlega einskis til að fá sínu framgengt eða fullnægja því sem þeir kalla ‘réttlæti’.
Það er alveg ástæða fyrir því að þessi bók fær allstaðar fullt hús. Hún á það fyllilega skilið. Svo bíðum við spennt eftir myndinni í bíó! Vel gert Stefán!
Lestu hér hvað Anna K. Halldórs hefur að segja um Grimmd og hér er Facebook síða Stefáns Mána.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.