Í gærkvöldi fór fram í Hörpunni uppskeruhátíð sviðslistafólks. Þá voru sviðslistaverðlaunin Gríman veitt en liðin eru 10 ár frá því verðlaunin voru fyrst veitt. Þetta er í fyrsta skipti sem sviðslistaverðlaunin eru veitt í Hörpunni en setið var til borðs í Silfurbergi.
Það var góð stemning á meðal leikhúsfólks en Ólafur Darri Ólafsson sá um kynningar og nýlega útskrifaðir leikarar, dansarar og sviðslistafólk úr Fræði og framkvæmd fengu þann heiður að veita verðlaunin. Það vakti athygli að það komu 83 verk til greina við tilnefningar og verður það að teljast mikið -gefur í skyn hversu mikil gróska er í íslensku sviðslistaumhverfi nú um mundir.
TENGDÓ
Sú leiksýning sem stóð upp úr var sýning eftir Val Frey Einarsson “Tengdó” í uppsetningu CommonNonsense og Borgarleikhússins – en hún var valin “sýning ársins”. Einnig fékk Valur verðlaunin “besti leikari í aðalhlutverki” og “leikskáld ársins”. Það var í mikilli auðmýkt sem hann tók við þessum verðlaunum enda margt hæfileikafólk á ferðinni í þessum flokkum. Leikstjóri sýningarinnar Jón Páll Eyjólfson var einnig afar þakklátur því fólki sem hafði gefið af sér og lagt af mörkum til sýningarinnar. Þá var Davíð Þór Jónsson verðlaunaður fyrir “hljóðmynd” í sömu sýningu.
AFMÆLISVEISLAN
Leiksýningin “Afmælisveislan” rakaði einnig til sín verðlaunum en sýningin er sviðsetningu Þjóðleikhússins. Guðjón Pedersen var valinn “leikstjóri ársins”, Björn Thors var valinn “leikari ársins í aukahlutverki” og tileinkaði hann verðlaun sín íslenskum leikskáldum þrátt fyrir að Afmælisveilsan sé eftir Harold Pinter og vildi hann þannig hvetja áfram íslensk leikskáld. Kristbjörg Kjeld var valin “leikkona ársins í aðalhlutverki” fyrir sömu sýningu en sú glæsilega leikkona á að baki langan og glæsilegan feril.
Það var svo Ólafía Hrönn Jónsdóttir var valin “leikkona ársins í aukahlutverki” fyrir leik sinn í Heimsljósi en það er í sviðsetningu Þjóðleikhússins og var einnig tilnefnt til fjölda annara verðlauna.
Sprotinn
Í ár var svo nýr verðlaunaflokkur tekin upp sem kallast “Sprotinn” en vert er að telja upp allar þær sýningar sem tilnefndar voru í þeim flokki:
- Kári Viðarsson og leikhúsið Frystiklefinn í Rifi á Snæfellsnesi
- Leikhópurinn 16 elskendur og uppfærsla þeirra á verkinu Sýning ársins
- Leikhópurinn Sómi þjóðar og uppfærsla þeirra á verkinu Gálma
- Uppfærslan Matarleikhús Völuspá – Teater Republique í samvinnu við Norræna húsið
- Tinna Grétarsdóttir danshöfundur og uppfærsla hennar á verkinu Skýjaborg
Þessi flokkur leggur áherlsu á að veita því sviðslistafólki verðlaun sem hefur stuðlað að frumleika og framúrskarandi nýbreytni á árinu en það var leikhópurinn 16 elskendur með leiksýninguna “Sýning ársins” sem hreppti verðlaunin.
Dansinn fékk sitt
Verðlaun í flokki danslista fengu Anton Lachky sem “danshöfundur ársins” fyrir Fullkominn dag til drauma og dansarinn Ásgeir Helgi Magnússon var valinn “dansari ársins” fyrir hlutverk sitt í “Á vit” en hann er staddur Feneyjum að dansa í sýningu með dansaranum Ernu Ómardóttur.
Barnasýningar
Barnasýningin “Skrímslið litla systir mín” sem sýnd var í Norræna húsinu í sviðsetningu 10 fingra hlaut verðrlaunin “Barnasýning ársins” en um var að ræða sérstaka barnasýningu – í leikstjórn Charlotte Böving – þar sem börn tóku þátt í sýningunni og upplifðu leikhústöfra í hæsta gæðaflokki.
Útvarpsleikritin
Einnig voru 3 útvarpsleikrit tilnefnd, öll framleidd af Útvarpsleikhúsi RÚV. Það var útvarpsleikritið “Egils saga” í leikstjórn Erling Jóhannessonar sem hlaut verðlaunin “útvarpsverk ársins” – en verkið var flutt á nútímaíslensku. Viðar Eggertsson veitti verðlaununum viðtöku þar sem Erling var fjarverandi. Hann tók fram að þrátt fyrir lítið fjármagn hefði tekist að framleiða útvarpsleikritin með hjálp þeirra sem að þeim stóðu og þakkaði þar m.a. Ingvari E. Sigurðssyni leikara.
Sýningin “Hreinsun” fékk einnig tvenn verðlaun. Það var Ilmur Stefánsdóttir sem hlaut verðlaun fyrir “leikmynd ársins”. Einnig voru veitt verðlaun fyrir “lýsingu ársins” sem Halldór Örn Óskarsson sá um í sama verki. Þannig að þeir sem ekki hafa séð sýninguna mega geta sér til um að Hreinsun, sem var í leikstjórn Stefáns Jónssonar, hafi verið sérstaklega flott sýning fyrir augað.
Búningar, heiðursverðlaun og fleira…
Filippía I. Elísdóttir fékk verðlaun fyrir “búninga ársins” í “Töfraflautunni” en þess má geta að hún var einnig tilnefnd fyrir búninga í óperunni “La Boheme”, Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson fengu Grímuna fyrir “tónlist ársins” í “Sögu þjóðar” og Þór Breiðfjörð var valinn “söngvari ársins” fyrir “Vesalingana” (sem tilnefnd var í mörgum flokkum) og virtist ánægður með góðar viðtökur eftir langa veru erlendis.
Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, afhenti leikmyndahönnuðunum Steinþóri Sigurðssyni og Sigurjóni Jóhannssyni heiðursverðlaun á hátíðinni og minntist á að þetta væru verðlaun sem þeir báðir verðskulduðu ríkulega og sagði ennfremur að hennar bestu stundir í lífinu hefðu verið í leikhúsi. Það voru fjölmörg verk tilnefnd sem áttu viðurkenningu skilið og skal öllum tilnefndum og aðstandendum sýninga óskað innilega til hamingju með frábæran árangur á leikárinu sem er að líða!
Pjattrófurnar óska ennfremur sigurvegurum kvöldsins til hamingju með árangurinn og þakka fyrir að hafa fengið að fylgjast með blómlegu leikhúslífi í vetur. Við getum öll verið ánægð með þá grósku sem greinilega er í íslenskum sviðslistum og hlakkað til þess að njóta áfram listar í hæsta gæðaflokki.
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.