Grillskóli Garðheima og Weber er haldinn í Spírunni, bistro veitingarstað á efri hæð Garðheima en ég skellti mér á námskeiðið þar sem mér var kennt að grilla kjöt, steikur, fisk, korn og SÚKKULAÐIKÖKU!
Á námskeiðinu var farið í hvernig hægt er að bæta grilltæknina, hver er munurinn á beinni og óbeinni grillun, hvort sé betra að nota gas eða kol, hvernig á að þrífa grillið og láta það endast betur. Ég lærði um krydd og kryddlög, hvernig á að undirbúa steikina og fleira og fleira.
Ég fékk meira segja að prófa sjálf að grilla mína steik og þar sem ég er búin að vera fylgjast með Hells Kitchen leið mér svolítið eins og þátttakanda þar þegar kokkurinn skar steikina mína varlega í sundur til að dæma hana nema stemningin í eldhúsinu var frekar svona eins og Heaven Kitchen og að sjálfsögðu var steikin mín fullkomlega bjútífúll, en ekki hvað!
Á námskeiðinu var einnig vínkynning og fékk ég að bragða á allskonar vínum frá öllum heiminum og fékk fræðslu með.
Ég kynntist meira segja einu hvítvíni það vel að ég gat ekki annað en farið og keypt mér eina flösku með pizzunni sem ég grillaði daginn eftir og bauð tengdaforeldrum mínum upp á en aðal áskorunin í því matarboði var að prófa að grilla súkkulaðikökuna guðdómlegu sem ég lærði að grilla á námskeiðinu.
Þessi súkkulaðikaka toppaði allt sem hægt er að toppa bæði hjá eiginmanninum og tengdaforeldrunum alveg eins og hún gerði á námskeiðinu.
Þetta námskeið er algjört brill. Matreiðslumaðurinn Hinrik Carl Ellertsson er einstaklega fjörugur, talar mikið, gefur frá sér afslappandi þokka og með samstarfi við Vínskólann varð kvöldið ljúfara og léttari gleði færðist yfir hópinn.
Ef þú hefur áhuga á að fara með vinahópnum, vinnufélögunum, fjölskyldunni eða bara ein á svona námskeið þá lofa ég þér að þú eigir eftir að hafa gaman að þessu og ganga PAKKSÖDD út!
[youtube]http://youtu.be/0gLQlHGyXO0[/youtube]Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.