Við rákumst á svo ótrúlega skemmtilega auglýsingu á Facebook að það var ekki um annað að ræða en að deila henni áfram.
Hér erum við með Lindu Björk Hjördísar Gunnarsdóttur, einstaklega orðheppna, dýrelskandi sveitastelpu sem er að leita sér að íbúð miðsvæðis í Reykjavík. Hún kemur sér beint að efninu, er ekki að skafa af neinu. Hún er bara svona grey úr sveit sem kann ekki að vera til án þess að hafa loðna ást nálægt sér, eins og hún segir sjálf! 🙂 Við vonum það besta fyrir hennar hönd. Enda elskum við líka dýr!
***
Halló Halló!
Hér kemur auglýsing frá óvinsælasta leigjendahópi landsins… Konu með gæludýr.. Ég veit, ég veit, bara með því að nefna orðið gæludýr þá grípa flestir í perlurnar sínar, jesúsa sig og falla næstum í yfirlið í forundran yfir slíkum asnaskap. En svona er þetta bara.
Ég er grey úr sveit, ég kann bara ekki að vera til án þess að hafa loðna ást nálægt mér (ég veit að þetta síðasta má túlka á marga vegu en þrátt fyrir það þá læt ég það standa). Og ég er því að biðla til þeirra þarna úti sem hata ekki gæludýr. En þá kemur smá lýsing á okkur þríeykinu.
Ég sjálf: Heiti Linda, er 32 ára Akureyringur sem hefur búið í Reykjavík í hátt í 10 ár. Ég er verslunarstjóri í verslun á Laugaveginum og ég er að leita mér að húsnæði sem er miðsvæðis í Reykjavík því ég ferðast allt annaðhvort fótgangandi eða á hjóli. Því nær sem heimili mitt er við Laugaveginn, því betra sem sagt.
Annars ég strangheiðarleg og leigan er það fyrsta sem geng frá um hver mánaðarmót. Ég er einkar hlynnt hugtakinu “þetta reddast” nema þegar kemur að því að hafa þak yfir höfuðið og eiga mat fyrir mig og dýrin mín – ég er semsagt ekki gellan sem ákveður að skella sér til Köben yfir helgi og hef seinna áhyggjur af því hvernig ég greiði húsaleiguna. Þetta sveitalið er nefnilega svo vel upp alið, sjáið þið til. Og ég tek fulla ábyrgð á sjálfri mér og dýrunum mínum.
Ef kisa myndi nú einn daginn brjóta skápurð af eldhúsinnréttingunni eða kanínan rífa niður loftljósið (ólíklegt í hæsta máta svosem) þá greiði ég fyrir það. Rétt eins og ég hefði gert þetta sjálf. Þess má einnig geta að ég er snyrtileg og ég myndi aldrei nokkurntíma láta það gerast að það væri ólykt eða óþrifnaður eftir dýrin. Kanínan lyktar meira að segja agalega vel, ef maður rekur nefið í feldinn þá finnur maður blóma og sumarlykt. Ég veit ekki hvernig hún fer að því, en vel lyktar hún. Kötturinn lyktar bara venjulega, því miður.
Annars er ég hin mesta rólyndismanneskja, held sjaldan partý og þegar það gerist þá má taka það fram að vinir mínir eru mesta sómafólk sem æla sjaldan á dyraþrep nágrannanna og langoftast þá hætta þeir að vera háværir um miðnætti. Ég hef mjög gaman af því að ferðast innanlands og læt mig hverfa í nokkra daga þegar ég kem því við, þá annað hvort í Akureyrarheimsókn eða upp á fjöll. Gæludýrin eru ekki skilin eftir í reiðuleysi á meðan. Ég er hress og ljúf, er að leita mér að langtímaheimili, hef fastar tekjur, er reyklaus og er tilbúin til að verða uppáhaldsleigjandi þess sem hefur áhuga á því.
Kára: Kanínan á heimilinu. 4 ára (miðaldra). Kvenkyns og já, heitir Kára. Löng saga á bak við það. Hefur mest gaman af því að éta hey og smákökur. Á það til að slátra síma og tölvusnúrum og ég þarf að “kanínuvæða” allt slíkt. Kæri mig ekki um að muna eftir öllum símasnúrunum sem hún hefur stútað. Hefur rosalega gaman af því að fá að fara út í garð yfir sumartímann til að hlaupa smávegis um. Þorir aldrei langt frá mér þegar við erum úti. Kára fannst skilin eftir úti á Suðurgötunni fyrir nokkrum árum. Hafði ekki hjarta í mér að láta hana eiga sig og því er hún partur af fjölskyldunni núna. Feimin við ókunnuga.
Grimmhildur: Kisan. 10 ára. Bættist nýlega í hópinn. Átti að fara í svæfingu en ég tók hana að mér til að koma í veg fyrir það. Þrátt fyrir nafnið þá er hún ljúfasti köttur í heimi. Taugaveikluð í hæsta máta og er hrædd við alla sem hún hefur séð sjaldnar en fimm sinnum. Sefur mestallan daginn. Sefur ofan á mér þegar ég er heima. Fygist grannt með öllum kattarferðum fyrir utan gluggann. Kíkir út í nokkrar mínútur í einu og gerir þarfir sínar í kassann sinn en ekki úti í garði. Hún er næm með eindæmum og finnur það um leið ef ég er illa fyrir kölluð. Þá kæfir hún mig með ást og umhyggju. Móðgast auðveldlega ef ég fæ mér að borða og gef henni ekki með.
Jæja, þá er þessari langloku lokið. Ef einhver þarna úti vill fá okkur þrjár sem leigjendur frá og með 1. febrúar næstkomandi þá má sú sama/sá sami hafa samband hérna í gegnum skilaboðin eða senda okkur línu á lindabjork09@gmail.com.
Annars bara gleðileg jól frá Lindu, Káru og Grimmu! grin emoticon
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.