Þegar hungrið sverfur að á milli mála er besta ráðið að skella í góðan heilsudrykk.
Þannig nærir maður líkama og sál af dásamlega hollu góðgæti, slær á sykurþörfina á skjótan máta og mettar magann um leið.
Hér gef ég uppskrift að einum slíkum sem er í uppáhaldi á heimilinu um þessar mundir.
Drykkurinn er svo saðsamur að hann gæti jafnvel komið í stað máltíðar.
Stútfullur af vítamínum, kalki, járni, sojaprótíni og hollri fitu gefur drykkurinn líka frábært start inn í nýjan dag og er því fínasti morgunverður.
Uppskriftin er fyrir tvo drykki.
- 2 dl sojamjólk
- 1 banani
- 2 handfylli spínat eða annað grænt salat
- 15-20 heilar möndlur
- ½ kiwi, (hýðið flysjað af)
- 1-2 dl klakar
Allt sett í góðan blandara og þeytt vel saman þar til drykkurinn verður mjúkur og fínn.
Rósa starfaði um árabil sem blaða- og fréttamaður lengst af hjá fréttastofu Stöðvar tvö og Bylgjunnar. Hún hefur skrifað um mat og matargerð í ýmis blöð og tímarit, þar af í rúman áratug fyrir Gestgjafann. Rósa gaf út sína fyrstu matreiðslubók, Eldað af lífi og sál, haustið 2009. Nú starfar Rósa við ritstörf hjá Bókafélaginu og er bæjarfulltrúi í Hafnarfirði.