Af hverju hlaupum við gjarnan til og reynum að hressa okkur við þegar við erum leið í stað þess að taka á móti óþægindunum?
Ég átti í áhugaverðum samræðum við fjölskyldumeðlim um daginn. Einhvernveginn komst það til tals hvað það væri gott að líða stundum bara dálítið illa, hversu sjúkt sem það nú hljómar. Leyfa sér að finna aðeins fyrir t.d. sársaukanum sem fylgir ástarsorg eða ástvinamissi.
Þessi fjölskyldumeðlimur deildi því einnig með mér að í barnæsku sinni hefði hann gjarnan lokað sig af inn í herbergi og spilað sorlega tónlist í þeim tilgangi að framkalla grát. Ekki vegna þess að það væri einhver sérstök ástæða til að gráta heldur þótti viðkomandi það bara svo gott.
Það er óneitanlega ákveðin pressa á okkur að vera alltaf hressar og glaðar. Síðan fáum við margar hverjar samviskubit yfir því að vera það ekki. Pressan kemur ekki bara frá samfélaginu heldur líka okkur sjálfum.
Ég tel að það sé aldrei gott að birgja inni tilfinningar, betra að fá einhverskonar útrás fyrir þær. Það er hreinsandi og í raun afslappandi að sleppa takinu. Viðurkenna vondar tilfinningar, taka á móti þeim og leyfa þeim að vera um tíma en auðvitað á að gera eitthvað í málunum ef sorgin og leiðin er farinn að taka yfir langt tímabil.
Ég lýk máli mínu með þessari tilvitnun úr Dr. Who …
Kathy Nightingale: “What did you come here for anyway?”
Sally Sparrow: “I love old things. They make me feel sad.”
Kathy Nightingale: “What’s good about sad?”
Sally Sparrow: “It’s happy for deep people.”
Fanney hefur skrifað á Pjattið frá 2012. Hún skrifar mest um andlegu hliðina og lífsstílstengd mál. Fanney er viðskiptafræðingur og starfar sem slíkur hjá Markhóli markþjálfun. Hún býr í 105 Rvk ásamt sambýlismanni sínum Óskari Arnarsyni. Fanney er með sól í fiskum en er rísandi bogmaður.