Stundum eru nafnlaus góðverk ekki svo gáfuleg – eða hvað?

Stundum eru nafnlaus góðverk ekki svo gáfuleg – eða hvað?

thorunnÉg hef verið að hugsa um góðverk undanfarið og ekki að ástæðulausu, mér finnst fallegt að heyra af góðverkum, stórum og smáum og hef heyrt meira um þau eftir að Facebook hópurinn góða systir fór í loftið.

Ég man eftir einu “góðverki” úr minni æsku.

Ég var örugglega sirka 6 ára og elskaði að horfa á Afa í sjónvarpinu, leikinn svo snilldarlega af Erni Árnasyni.

Hann kom alltaf með svona gullmola og spakmæli sem mér þótti vænt um og fengu mig til þess að hugsa um hluti sem ég hafði áður ekki leitt hugan að.

Að þessu sinni talaði Afi um góðverk, að sönn góðverk væru þau sem maður gerði frá hjartanu og væri ekki að ætlast til þess að fá neitt í staðinn, þar af leiðandi þyrfti maður ekki alltaf að segja frá góðverkinu.
Þetta tók ég til mín og var staðráðin í að gera eitthvað gott!

Lærði af reynslunni en gafst ekki upp

Ég átti reyndar sögu af mörgum misheppnuðum góðverkum úr æsku allt útaf þessari setningu Afa, eins og að hlaupa heim úr búðinni þegar mamma dáðist að dugnaði skokkarana sem hlupu úti í vonda veðrinu og kvörtuðu ekki neitt þagar við keyrðum fram hjá þeim, það varð til þess að ég ákvað að gera mömmu stolta án þess að láta hana vita, fékk ég vinkonu mína sem var í pössun hjá okkur að stinga mömmu af og skokka heim allaleiðina frá JL húsinu þar sem við vorum með mömmu að versla í kvöldmatinn og heim á Skeljagrandann.

Það vakti ekki lukku eins og við mátti búast, móðir mín var skelfingu lostin eins og allar mæður sem finna ekki börnin sín, æddi um búðina og fór loksins út þar sem hún sá sjúkrabíl og hélt það versta. Hún fann okkur hlæjandi heima og var skiljanlega í mikilli geðshræringu því hún vissi ekkert hvað hefði gerst. Ég lærði af þessari reynslu.

En ekki hætti ég að reyna að gera þögul góðverk. Ó nei…

thorunnlitlaHugmynd á nammistund í fjörunni

Þennan Laugardag sem Afi kenndi mér um þögul góðverk fékk ég smá nammipening eins og alla Laugardaga eftir að hafa tekið til í herberginu mínu (ekki þegjandi og hljóðalaust, það var það erfiðasta sem ég gerði sem barn, ábyggilega að sökum verkkvíða og athyglisbrests en það var lítill skilningur á þeim málum í minni æsku).

En eftir að herbergið varð “hreint” Þá fékk ég 50 krónur til þess að kaupa mér bland í poka og fór útí sjoppu, ég hafði búið mér til leynileið út á Eiðistorg því að það voru bræður sem voru algjörir hrottar sem höfðu gaman af því að lemja, stríða og vera vægast vondir við krakkana í hverfinu og við lifðum í ótta við þá.

Ég breytti hættuástandinu í ákveðið ævintýri í hausnum á mér að forðast þá og í leyfisleysi laumaði ég mér niður í fjöru yfir umferðaþungann Eiðisgrandann, því að þar myndu þeir bræður ekki finna mig. Ég komst áfallalaust útí sjoppu og valdi mér bland í poka, sem ég hljóp svo með aftur niður í fjöru þar sem ég settist á stein og sönglaði af ánægju yfir namminu og útsýninu.

En hvað sá ég þarna í svörtum sandinum, þetta var MÚS! Þarna fór allt á stað í hausnum á mér hvernig ég gæti gert nafnlaust góðverk!

Kötturinn Whiskey átti gott eitt skilið

Það var par sem bjó við hliðina á okkur í blokkinni sem ég kallaði Levis parið, þau voru eins og rokkstjörnur, hún grunge gyðja og hann minnti mig á strákana á Gun’s n Roses plakatinu sem ég hafði tekið úr Æskunni og límt á vegginn hjá mér til þess að þykjast vera kúl.

Hún var gullfalleg, með svart sítt hár, alltaf í flegnum bolum með melluband og í níðþröngum svörtum Levis gallabuxum. Hann var líka með sítt hár í slitnum leðurjakka og líka í Levis gallabuxum, ég hafði aldrei nein samskipti við þetta par en þau vöktu alltaf áhuga minn og allra í kring þegar þau stormuðu eins og á 90´s tónleikasviði yfir grátt blokkarplanið. Þau áttu kött sem hét Whiskey.

Kötturinn Whiskey var sífellt að koma yfir til okkar og sníkja mat, ég var of ung til að átta mig á því að þetta er eitthvað sem kettir gera og hefur ekkert með það að gera hvort þeir fái að borða heima hjá sér eða ekki. Hann var köttur, kúrinn tækifærissinni sem ég skyldi heiðra þennan sólríka dag með nafnlausu góðverki.

Ég tók músina sem lá hreyfingarlaus í svörtum sandinum og setti hana inní græna nammipokann, hún var stærri en ég hélt að mýs væru og ekkert sérstaklega sæt, en Whiskey skildi fá þessa nafnlausu gjöf frá mínu hreina hjarta!

Góðverk og nágrannaerjur

Ég hljóp götuna Eiðisgrandann og beint inn í andyri með nafnlausu gjöfina í nammipokanum og ákvað að fyrst að ég gat engum sagt frá þá yrði ég að setja hana í póstkassann hjá Levis parinu. Þannig myndu þau alls ekki fatta frá hverjum þetta væri. Svo að ég gerði það.

Póstkassarnir í blokkinni voru langir og mjóir með gati á stærð við golfkúlu neðst, nógu lítið gat þannig að enginn gat tekið póstinn út en nógu stór að það sást ef það voru bréf. Þarna tók ég nammipokann og tróð honum inn. Svo fór ég heim í sólksinsskapi og sofnaði það kvöld með hlýju í hjarta. Svona eins og manni líður þegar maður gerir alvöru góðverk.

Mörgum árum seinna, þegar ég var um það bil tvítug og við fjölskyldan löngu flutt af Grandanum, þá heyrði ég mömmu og vinkonu hennar tala um hvað það hefði verið hræðilegt þegar fólkið var hrakið burt og rotta sett í póstkassann….. Þetta sló mig, eins og elding í hausinn.

Ég áttaði mig á mörgu akkúrat þarna, fyrsta lagi var þetta ekki mús, heldur ROTTA og það sem ég var of ung til þess að skilja að það voru miklar nágrannaerjur í blokkinni og þetta par var miðpunktur þeirra.

Það hefðu verið hótanir og einhver hafði í illsku sett hráan hákarl inn um póstkassann þeirra viku áður.

Ekkert af þessu vissi ég þegar ég ætlaði að gera nafnlaust góðverk sem Afi yrði stoltur af og varð þess valdandi að fólkið flutti burt úr blokkinni og kötturinn Whiskey með!

Ég hef mikið pælt í hver lexían í þessari sögu sé…að segja frá góðverkum eða ekki, kanski fór þarna af stað atburðarrás sem varð öllum til góðs og Levis parið og kötturinn Whiskey svifu í Glam rock reyk inní sólsetrið og fundu betri húsakynni. Hver veit….innilega afsakið ef svo var ekki.

Ef svo undarlega vill til að fallega Levis konan með svarta hárið lesi þetta, – þá veistu núna söguna, þetta var ekki morðhótun heldur einungis nafnaulst góðverk frá hreinu barnshjarta til kattarins Whiskey

Share on facebook
Deila á Facebook
Share on twitter
Deila á Twitter
Share on pinterest
Deila á Pinterest