Eins og flestir vita hefur enn ein vitundarvakningin hviknað hjá íslensku kvenfólki, nema í þetta skiptið á Facebook síðu sem heitir Beauty Tips. Á þessari síðu eru einungis kvenmenn eða um 22 þúsund af þeim. Hver hugrakka konan á fætur annari hefur stigið fram með vægast sagt áhrifamiklar frásagnir.
Flestar segja frá nauðgun sem þær hafa því miður orðið fyrir og oftar en ekki eru frásagnirnar svo áhrifamiklar og átakanlegar að maður getur ekki annað en tekið ofan af fyrir þeim. Á sama tíma og þetta krefst ótrúlega mikils hugrekkis þá get ég ekki ímyndað mér annað en brjálæðislega mikla frelsistilfinningu. Íslenskar konur eru svo sannarlega miklar byltingakonur og ég er ótrúlega stolt af því að vera íslensk kona.
Að þessu sögðu langar mig að skoða betur nýlegustu byltinguna sem hefur tröllriðið BT síðunni undir hashtagginu #þöggun og #konurtala.
Femínistar hafa unnið að því að brjóta bak aftur goðsagnirnar um nauðganir en nauðgun er fyrst fremst verk ofbeldis, ekki ástríðu. Nauðgun snýst um vald og miðar að því að lítillækka, niðurlægja og kúga þann sem er nauðgað.
Goðsagnirnar
- Yfirleitt þekkir fórnarlambið ekki gerandann í nauðgunarmálum.
- Flestar nauðganir fara fram um verslunarmannahelgina og á útihátíðum.
- Nauðganir fara yfirleitt fram í skuggasundum.
- Þegar konur segja nei þá meina þær já, þ.e.a.s. konur vilja undir niðri láta nauðga sér.
- Aðeins ungum og aðlaðandi konum er nauðgað.
- Konan meiddist ekki eða barðist á móti, þá er það ekki nauðgun.
- Það eru bara sumar konur sem eiga á hættu að vera nauðgað, t.d. fátækar konur eða konur sem stunda mikið kynlíf.
- Konu sem hefur verið nauðgað er með einhverja líkamlega áverka.
- Nauðgarar eiga það sameiginlegt að eiga við geðsjúkdóm að stríða, vera alkóhólistar eða dópistar eða hafa sjálfir verið misnotaðir sem börn.
- Nauðgarar nauðga vegna þess að þeir eru haldnir kynferðislegum losta.
- Nauðgarar nauðga óvart, í hita augnabliksins.
- Karlmönnum er ekki nauðgað.
- Karlmenn sem nauðga gera það af því þeir geta ekki fengið kynlíf með samþykki.
Staðreyndir
- 1-2 % nauðgunarkæra eru upplognar, sama og erlendis. 4% af glæpum almennt eru upplognir.
- Fæstir brotaþolar leita sér hjálpar.
- Nauðgarar eru allskyns fólk í allskyns stöðum í samfélaginu.
- Nauðgarar bera það svo sannarlega ekki með sér og getur hinn viðkunnanlegasti maður átt sér skuggahlið.
- Á árunum 2002-2006 voru 155 nauðganir kærðar á Íslandi.
- 105 þeirra voru felldar niður.
- 22 enduðu með sýknu í Héraðsdómi.
- 24 sakfellingar.
- 20 áfrýjað.
- 2 sýknað í Hæstarétti.
- 7 sakfellingar í Hæstarétti.
- Á sama tímabili leituðu 472 einstaklingar á Neyðarmóttöku nauðgana.
- 408 nauðganir komu inná borð Stígamóta.
- 156 konur komu vegna kynferðisofbeldis á Kvennaathvarfið.
- 6 á neyðarmóttökuna á Akureyri.
- Árið 2006 var ákært í 7 málum er varða kynferðisbrot gegn börnum, meðalrefsingin í þeim brotum sem sakfellt var fyrir var 9 mánuðir. Meðalaldur brotaþola var 10 ár.
Rannsóknir frá árinu 2008 varðandi kynferðisofbeldi á íslandi eru mjög sláandi og langt frá því að vera í samræmi við ákærur.
- 42% íslenskra kvenna hefur orðið fyrir ofbeldi af hálfu karls, það jafngildir um 44-49 þúsund kvenna á aldrinum 18-80 ára.
- 22.632 íslenskar konur segjast hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi þar af 13.579 fyrir 18 ára aldur.
- 81% kvennanna sögðust enn vera að glíma við afleiðingarnar þegar spurt var.
- 21% kvennanna leituðu sér aðstoðar.
- Yfir 80% brotaþola þekkja nauðgarann.
Menningin er vandinn
Oft er mikill munur á hlutlægu og huglægu skilgreiningunni á nauðgun. Fólk horfir misalvarlegum augum á þetta ofbeldisverk en ofbeldi er það svo sannarlega. Ég hugsa að margir ofbeldismenn gera sér oft ekki grein fyrir því hvað þeir voru að gera eða afleiðingarnar af því og alvarlegar eru þær. Ég er ekki foreldri sjálf og því get ég ekki skilið þá stöðu fullkomlega að kenna börnunum mínum um slíkt ofbeldi eða hvernig á að takast á við það. Foreldrar eru svo uppteknir að kenna börnum sínum að forðast ofbeldi eins og; ekki láta nauðga þér, á meðan við ættum að vera að kenna þeim að beita ekki ofbeldi; EKKI nauðga. Við þurfum að horfast í augu við raunveruleikann þó hann geti verið ógeðfelldur oft á tíðum og tilhugsunin um það að barnið þitt muni beita ofbeldi er svo fjarstæðukennd að þá er það ekki endilega svo ólíklegt. Spurningin er s.s. hvort rót vandans liggi í því að við kennum fólki að forðast ofbeldi í stað þess að beita EKKI ofbeldi ?
Kennum börnunum okkar að fá JÁ, að fá pottþétt samþykki ! Kennum þeim að setja sjálfum sér og öðrum heilbrigð mörk.
Varhugavert er að líta á gerendur sem skrímsli þó glæpurinn sem þeir hafa framið sé hrikalegur. Oft eru þetta venjulegir menn sem misnota stöðu sína. Ef við lítum á nauðgara sem skrímsli og afgreiðum málin þannig tæklum við ekki rót vandans. Einnig ef við skrímslavæðum gerendur trúum við aldrei að einhver sem við þekkjum af góðu hafi nauðgað sem er þó staðreynd. Menningin er vandamálið.
Það þarf að skila skömminni heim og það er nákvæmlega það sem svona vakningar gera ! Skilum skömminni og látum ofbeldismennina bera ábyrgðina, ekki þolendurna.
Róberta Michelle Hall er fædd í Reykjavík en rekur rætur sínar til Bandaríkjanna eins og nafnið ber með sér. Hún á erfitt með að sitja kyrr og líður best með mörg járn í eldinum. Helstu áhugamál Róbertu eru líkamsrækt, sálarrækt og bakstur. Hún bakar allt milli himins og jarðar hvort sem það er óhollt eða hollt og lætur stundum aðra um að klára kökuna sem hún smakkar þó sjálf því gott skal það vera!