Klukkan var að skríða rétt yfir fimm eitt síðdegið þegar ég ákvað að heimsækja gamlan og góðan vin; nytjamarkað Góða hirðirsins í Síðumúla.
Góði hirðirinn er heill heimur fullur af spennandi dóti og þarna ættu allir grúskarar að finna sér eitthvað til að dunda við. Verslunin er í stærðarinnar rými sem er sneisafullt af sófum, borðum, rúmum, kistum, hljómplötum, gardínum, postulíni, ljósum, ísskápum… skíðum, skautum, sjónvörpum, myndarömmum… Listinn er endalaus. Ef smekkurinn þinn er góður ætti útkoman að vera hreint út sagt frábær. Það eina sem þarf er að þrífa hlutina og þá eru þeir svo gott sem nýir.
Lykillinn að góðri ferð í Góða hirðinn er að “detta óvart inn” og hafa þar af leiðandi engar væntingar. Og annað að stoppa ekki lengi því lyktin er, tja ekki sem best. Þannig var það einmitt þetta síðdegi… ég gekk hratt um og leitaði í rekkunum að einhverju sem ég vissi ekki hvað var… og allt í einu, já þarna var hún þá. Uppáhaldsmyndin mín í öllum heiminum:
Kossinn fyrir framan ráðhúsið í París, tekin árið 1950.
Kossinn er fræg mynd sem franski ljósmyndarinn Robert Doisneau tók af ástöngnu pari sem kyssist heitt og innilega. Sá sem hefur komið til Parísar hefur örugglega keypt póstkort með myndinni og sent einhverjum kveðju frá París, borg elskendanna. Enn frægara varð þegar parið fór í mál við ljósmyndarann vegna myndbirtingarinnar.
Og þarna var hún, þessi litli demantur mitt í öllu draslinu. Ég beinlínis titraði þegar ég tók myndina niður af veggnum. Skjálfandi gekk ég áfram með djásnið í höndunum og fann þá enn aðra mynd eftir ljósmyndarann. Ótrúlega af litlum, frönskum skólastrákum árið 1956.
Þetta var eitthað meira en heppni, ég kleip mig í handlegginn.
Til að kóróna þennan dag, fann ég líka ómótstæðilegan spegil sem ég greip strax þéttingstaki og sex arabísk gullglös úr bláu gleri. Þarna var ég hætt að titra og komin yfir mig hrein græðgi þess sem kaupir og kaupir allt sem hann sér. Svo nú er ekkert annað eftir en að kokka upp arabískt te og hella í nýju glösin og bjóða vinkonunum í te. Því fylgir hér góð uppskrift að arabísku tei:
Gun powder telauf – fást í Heilsuhúsinu, 200 gr. brúnn sykur og myntulauf.
Suðunni er komið upp á slatta af telaufum og látið sjóða í 3 mínútur. Þá er vatninu hellt í könnu og telaufin síuð frá. Blandan er sterk.
Síðan er soðið meira vatn og sett út í teblönduna ásamt sykri og myntulaufum. Passa bara að hafa ekki of mikinn sykur.
Smelltu hér til að stækka myndirnar:
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.