Þórunn Antonía Magnúsdóttir söng og leikkona hefur stofnað Facebook hópinn Góða Systir en hópurinn hvetur konur til að tala fallega hver um aðra og láta af slæmu umtali.
Við ákváðum að heyra í Þórunni og kanna hvað kom til. Til hvers að stofna hóp sem snýst um svona vitundarvakningu?
„Ég lá andvaka að hugsa um ýmsa þætti lífsins eftir kvöldstund með stóru systur minni. Ég hugsaði mikið um hvað það er gott að eiga góðar konur að og hvað það skiptir miklu máli að standa vörð um það.”
Í þessu samhengi nefnir Þórunn það þegar konur tala illa um hver aðra og hvernig það væri gott að líta í eigin barn, taki maður þátt í slíku umtali.
Til hvers er maður að segja eitthvað slæmt um aðra?
„Frá því ég var lítil hefur mér alltaf þótt óþægilegt að hlusta á og taka þátt í illu umtali um annað fólk og sérstaklega í stórum hópi eins og samkvæmi þar sem allir eru að tala um eina manneskju sem er ekki á staðnum. Eins og allir aðrir hef ég þó alveg gerst sek um að taka þátt í slíku en það lætur manni ekki líða vel,” segir Þórunn og bætir við að oft sé gott að skoða hvaðan þörfin fyrir að tala svona um aðra komi.
„Er maður að segja eitthvað slæmt um einhvern annan til að upphefja sjálfan sig? Er þetta út af óöryggi? Hræðslu? Öfund? Það er auðvitað alltí lagi að hafa skoðanir á hlutum og fólki en það er líka gott að staldra við og sjá hvaðan hún kemur,” segir Þórunn.
„Svo er bara svo fallegt að hrósa og fá hrós. Það er góð tilfinning að gera gott og láta öðrum líða vel. Það er nefnilega þannig að maður er fallegur þegar maður segir eitthvað fallegt og ljótur þegar maður segir eitthvað ljótt. Mjög einfalt! Mig langar líka að vera falleg fyrirmynd fyrir dóttur mína,” segir Þórunn að lokum en hún varð mamma Freyju Sóleyjar fyrir rúmu ári.
Smelltu hér til að vera með í hópnum Góða Systir og mundu að segja eitthvað fallegt við kynsystur þínar í dag – og klemma saman varirnar ef þig langar að segja eitthvað ljótt. ♥
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.