Margir kannast væntanlega við það að taka allt heimilið reglulega í gegn og tveimur dögum seinna er allt komið í drasl og þrifin farin fyrir lítið. Í gegnum tíðina hef ég sankað að mér allskyns góðum skipulagsráðum sem hafa virkað fyrir mig þannig að heimilið er yfirleitt hreinlegt og fallegt.
Skipulagið skiptir öllu
1. Alþrif
Taktu ákveðinn dag í hverri viku til þess að sinna stórþrifum eins og að ryksuga, skúra, skipta um á rúmum, þrífa baðherbergi, setja í þvottavélar og þurrka af. Sunnudagar, um og eftir hádegi hafa reynst mér vel og öll verkin taka í kringum eina og hálfa klukkustund (fer eftir stærð heimilis).
2. Eldhúsið
Settu það sem reglu að vaska upp eftir máltíðir og/eða í lok hvers dags ef þú ert ekki með uppþvottavél. Strjúktu svo af borðum og eldavél í leiðinni. Þetta tekur í kringum 5-10 mínútur og sparar manni tíma síðar meir.
3. Baðherbergið
Ryk og óhreinindi geta orðið áberandi á baðherberginu og ef þú notast við hreinsiklúta til að þvo þér í framan á kvöldin er sniðugt að strjúka af vaskinum/klósettinu annan hvorn dag með því sama og henda því svo í ruslið.
4. Þvotturinn
Hver kannast ekki við að heilu fjöllin af þvotti safnist upp á örfáum dögum? Kíktu í þvottakörfuna annan hvorn dag og sjáðu hvort eitthvað þarf að þvo eða hvort eitthvað er á snúrunni/í þurrkaranum sem þarf að brjóta saman. Þá sleppurðu við að eyða heilum dögum í þvott.
5. Gólfin
Mér finnst góð regla að rykmoppa gólfið á 2-3 daga fresti á milli þess sem ég ryksuga eða skúra til að forðast ló og ryk á gólfinu. Klútarnir sem fást á rykmoppur eru sniðugir að því leyti að þeir draga í sig óhreinindi um leið og efnið í þeim gerir gólfið glansandi fínt!
6. Fötin
Ég er hræðileg með fatahrúgur og óskipulagðan fataskáp, en ef maður hengir fötin upp sem maður ætlar ekki að vera í þann daginn skapast hellings pláss og tími við að leita að þeim á morgnana 🙂
Það er sniðugt að fara í gegnum skúffur og skápa reglulega (eftir hentisemi) til að gá hvað er til og hverju má henda. Ef maður fer líka í gegnum fataskápinn á nokkurra mánaða fresti er aldrei að vita nema maður geti gefið eitthvað í Rauða Krossinn, selt eitthvað eða finni gersemar inni á milli sem maður var búinn að gleyma að maður ætti.
Prófaðu endilega að fara eftir þessum leiðum og sjáðu hvað alþrifin verða mun auðveldari þegar að því kemur ef þú heldur þeim við, og fáðu endilega maka og aðra fjölskyldumeðlimi með þér í rútínuna!
Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er förðunarfræðingur og útskrifaðist með hæstu einkunn úr MOOD Make Up School með áherslu á tísku- sjónvarps- og ljósmyndaförðun og tók Airbrush námskeið í sama skóla. Hún er sjálfstætt starfandi og tekur að sér hin ýmsu verkefni, allt frá einstaklings- og brúðarförðunum upp í tímarit og auglýsingar. Einnig vinnur hún fyrir Bobbi Brown á Íslandi sem sölustjóri.
— Vantar þig förðun og/eða persónulega förðunarráðgjöf? Hafðu samband á gunnhildur@gb-makeup.com