Hundabúið að Dalsmynni hefur oftar en einu sinni komist í fréttir vegna slæmrar meðferðar á dýrum. Mér þykja þessar fréttir bæði sorglegar og leiðinlegar fyrir margar sakir en fyrst og fremst vegna þess að það er aldrei gaman að heyra að dýr fái ekki að njóta góðs aðbúnaðar.
Um daginn horfði ég á þátt á Animal Planet þar sem hópur sérfræðinga frelsaði þar hóp af Beagle hundum sem höfðu aldrei fengið að fara út úr búrum sínum. Þeir voru hafðir á rannsóknarstofu á Spáni þar sem löggjöfin er líklegast eitthvað svipuð og hér á landi. Löggjöf sem í raun leyfir að illa sé farið með dýr. Málið vakti mikla athygli á netinu en HÉR má sjá myndband af því þegar greyin fengu að sjá sólarljós og stíga út úr búrunum í fyrsta sinn. Rúmlega þrjár og hálf milljón manna hafa skoðað myndbandið.
Nýkjörin formaður Dýraverndunarsambands Íslands, Sif Traustadóttir, sagði í viðtali við RÚV að tíkur séu hafðar í búrum að Dalsmynni, einungis til þess að ala hvolpa. Þetta þýðir að líkt og Beagle hundarnir fái þær aldrei að líta dagsins ljós, fá aldrei að hlaupa úti, fá líklegast ekki mikla mannlega snertingu eða að leika sér við aðra hunda. Þetta hljómar hrollvekjandi á allann hátt. Eðli hundsins er að vilja vera úti að leika sér og hundar eiga ekki að alast upp eins og minkar í búrum þó að löggjöfin leyfi það, eða sé svo illa sniðin að auðvelt sé að fara í kringum hana með þeirri útkomu sem raun ber vitni.
Eigendur Dalsmynnis eru að ég held ágætis fólk en þau standa í vafasömum viðskiptum. Þau eiga lífsviðurværi sitt í því að framleiða og selja hunda, reyna að bjóða margar tegundir og eru oft með hunda á ‘lager’.
Allir sem eiga í viðskiptum og sölumennsku leitast við að minnka útgjöld og hækka gróðann. Þannig er eðli kaupmennskunnar. En þegar lítil dýr eru söluvarningurinn, vill sölumennskan og sparnaðurinn í útgjöldum nær undantekningarlaust koma niður á þeim. Þetta liggur í hlutarins eðli og kemur skýrt fram þegar maður les sér nánar til um sögu slíkra viðskipta.
Persónulega finnst mér það eitt brenglað að löggjöfin skuli leyfa hundabú, sambærileg við minkabú, til þess eins að framleiða hunda og selja þá til þeirra sem vilja kaupa. Að hundar skuli lokaðir inni á afmörkuðu svæði, látir borða og gera stykkin sín á sama fermetranum er mjög langt frá því að vera í lagi.
Að löggjöfin á Íslandi skuli vera svo illa sniðin að hægt sé að komast upp með slíkt er ekki í lagi og því fyrr sem svo verður búið um hnútana að svona starfsemi fái ekki lengur að viðgangast – því betra. Við ættum ekki að sjá sóma okkar í öðru.
PS. Ég bendi áhugasömum að gúggla Puppy Mill eða Dog Breeding Farms fyrir frekari lestur um framleiðslustöðvar gæludýra. Myndirnar að ofan fann ég á netinu en myndin að neðan er tekin í Dalsmynni:
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.