Solla Eiríks hefur tekið við eldhúsinu á veitingastaðnum Gló í Engjateig og með henni er kokkur af Vox, stelpa sem ég veit ekki hvað heitir en trúðu mér -daman kann að elda!!
Ég hef þrisvar sinnum farið og fengið mér að borða þarna í hádeginu eftir að stelpurnar tóku við og þetta er bara alveg dásamlegt. Maturinn er vel útilátin, ferskur og alveg hreint fáránlega góður.
Satay kjúklingurinn sem ég smakkaði um daginn var eins og konan hans guðs hefði eldað hann. Ég og munnurinn á mér áttum einhverja furðulega sælustund saman þar sem ég sat ein inni í horni og japlaði á kræsingunum. Það gerðist eitthvað. Ég er ekki sama manneskjan lengur.
Ég held að bragðskynið mitt hafi verið tantrað.
Heitur réttur kostar um 1400 kr (hvað kostar pizza?) og svo geturðu auðvitað fengið súpu og salat og köku og kaffi fyrir eitthvað minna. Solla sér um að elda grænmetis og hráfæði og Vox-stelpan sér um kjúklinginn og fiskrétti.
Við mælum allar háróma og einróma með Gló í hádeginu. Þið getið pantað borð ef þið viljið og svo er líka hægt að droppa við bara á þennan skemmtilega stað þar sem maður hittir bæði bissnissmógúla og hörfatahippa enda elska allir góða matinn hennar Sollu.
Við höfum sett inn link hér á síðuna á matseðilinn þeirra sem þú getur tékkað á á hverjum degi. Svo ætlum við að vera duglegar á næstunni að segja ykkur frá fleiri góðum stöðum til að fá sér í gogginn og góðum kaffihúsum.
Það er nefninlega alltaf eins og það vefjist svo fyrir manni hvert eigi að skreppa ódýrt OG gott í löns… en við ætlum að leysa úr því og safna í topp 10 lista 🙂
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.