Það verður aldrei of oft kveðið að við foreldrar berum ábyrgð á því sem við kennum börnum okkar.
Margar uppeldisbækur leggja áherlsu á jákvæða svörun og einnig hef ég lesið að foreldrar eigi að velta fyrir sér hvað þau vilja að börn þeirra hafi lært að tíu árum liðnum. Það getur verið álag að vera foreldri og öll viljum við gera vel, að sjálfsögðu!
Ábyrgðin er mikil og fólk verður þreytt eftir langa vinnudaga o.s.frv. Það hefur oft heyrst að það sé þægilegt að planta barninu sínu fyrir framan “imbann” og einnig vilja mörg börn helst vera í tölvuleikjum eða á netinu allan liðlangan daginn. Svo eru sum börn viðkvæmari en önnur og þær kvikmyndir sem þau horfa á eða tölvuleikir sem þau spila hafa neikvæð áhrif á líðan þeirra.
Foreldrar geta stundum verið pínulítið kærulausir þegar kemur að því að fylgjast með því sem börn þeirra eru að gera og taka með því áhættu. Stundum eru börnin að horfa á eitthvað sem veldur þeim óöryggi og jafnvel martröðum og stundum er leyfilegt barnaefni einfaldega lélegt. En það er til fullt af góðu barnaefni, t.d. má nefna barnaþættina “Einu sinni var”- sem eru svo skemmtinlegir og fræðandi!
En það sem virðist gleymast stundum eru bækurnar. Það er ekki að spyrja að því að það er hægt að fá svo margar góðar bækur að lesa! Bæði er hægt að lesa fyrir börnin og svo auðvitað má hvetja þau sem kunna að lesa til þess að lesa meira sjálf. Lestur eykur orðaforða barna og þroskar einbeitingu og ímyndunarafl þeirra svo eitthvað sé nefnt.
HEIMSÆKJUM BÓKASAFNIÐ
Eitt af því sem er gaman að gera með börnum er að fara með þeim á bókasöfn. Í öllum bókasöfnum er aðstaða til þess að setjast niður til þess að skoða og lesa bækur. Oftar en ekki er líka leikaðstaða á bókasöfnum. Í Reykjavík eru oft uppákomur á bókasöfnum fyrir börn um helgar. Í Gerðubergssafni og aðalsafninu í Tryggvagötu eru fjölskyldumorgnar einu sinni í viku ætlaðir foreldrum lítilla barna sem ekki eru enn komin á leikskólaaldur. Þá er einnig boðið upp á uppeldisfræðslu fyrir foreldra o.m.fl. Það er meira að segja boðið upp á ókeypis heimanámsaðstoð fyrir nemendur í 5 – 10. bekk sem kölluð er “Heilahristingur” – alveg frábærlega snjallt að nýta þessa þjónustu!
Börn og unglingar fá frítt bókasafnskort til 18 ára aldurs. Er ekki bara komin tími til að skella sér á bókasafnið með barnið og fá lánaða einhverja góða og skemmtinlega bók?
Ég legg til að við hvetjum börnin okkar til lesturs og lesum meira fyrir þau. Það getur verið jafn yndisleg stund fyrir foreldrið að fá að lesa fyrir börnin eins og þau. Það er meira í boði fyrir börn en bíó og meira bíó…
En svo má auðvitað leigja bíómyndir á bókasöfnum líka það er ekki það 😉
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.