Það er yndislegt að fá að vera barn í fordómalausu umhverfi og það eru forréttindi að fá að ala börnin sín upp við þær aðstæður sem Ísland hefur upp á að bjóða..
Það eru ekki allir eins og það er frábært að fá að fylgja sínu hjarta og fá að vera eins og maður sjálfur vill vera. Að hugsa til þess að fullt af ungu, sem og fullorðnu fólki, þjáist í laumi út um allan heim bara fyrir það að heillast af manneskju af sama kyni þykir mér sárt að hugsa til.
Ég er svo heppin að hafa alltaf verið laus við fordóma og hef alltaf tekið fjölbreytileikanum fagnandi. Þegar ég var krakki fór pabbi minn heitinn með mig í mína fyrstu gleðigöngu og mér fannst hún alveg hreint frábær. Þá var töluvert minna af fólki enda er langt síðan. Eftir það fórum við pabbi saman í gönguna í mörg ár og ég fékk að upplifa þennan frábæra viðburð stækka í hvert skipti! Það er bara hreint út sagt dásamlegt að fá að upplifa allan þennan kærleik og þessa samstöðu hjá öllu þessi fólki sem mætir til að skemmta sér og veita samkynhneigðum stuðning sinn í baráttunni fyrir jafnrétti og frelsi.
Ég hef alltaf verið ákveðin í því að ala börnin mín upp í fordómalausu umhverfi. Kenna þeim að það er allt í lagi að vera öðruvísi, að maður eigi ekki að dæma aðra og að það sé gott að elska sjálfa sig sem og aðra.
Á mínu heimili höldum við upp á gleðidaginn en hann er sama dag og gleðigangan fer fram og er í raun mín litla útgáfa á hinsegin dögum af því við búum út á landi og bæði núna í ár og í fyrra komumst við ekki í gönguna.
Í fyrra kom ég bara börnunum á óvart með marglitum kökum sem ég bakaði og smá andlitsmálingu og við eyddum góðum tíma í að ræða afhverju gleðidagurinn er haldin en í ár tók ég þetta skrefinu lengra. Ég bauð vinum og ættingjum í smá gleðipartý þar sem ég bakaði marglitaðar kökur, svo hengdum við upp blöðrur og ég skellti á mig marglitaðri förðun.
Ég er nokkuð viss um að þessir 15 gestir sem við fengum í dag hafi ekki átt von á þessu þegar þau mættu heim í dag en ég er handviss um þau fóru heim með bros á vör og kærleik í hjarta, eins og við, eftir þennan frábæra dag, sem að ég kem til með að halda hátíðlegan aftur og aftur!
Eftir þennan frábæra dag hérna heima hjá mér í “sveitinni” get ég sagt að kærleiki, fjölbreytileiki og gleði bara bætir og kætir alla sem eru opnir fyrir því að við erum ekki öll eins.
Bjarney Vigdís er mikil áhugamanneskja um allt sem viðkemur heilsu, uppeldi, eldamennsku, tísku, förðun, handavinnu, fegrun heimilisins og öðru pjatti. Hún er menntaður förðunarfræðingur og er jafnframt framúrskarandi húsfreyja sem heldur einnig úti sinu eigin bloggi. Hún býr á vesturlandi í litlum bæ ásamt manni sínum og 6 börnum.