Á fallegu sumarsíðdegi nýverið hittust kátar Faxaflóaskvísur á Grandanum nánar tiltekið á bryggjunni fyrir neðan Kaffivagninn.
Við erum svo heppnar að ein kvensan sem var með okkur heitir Eirný Sigurðardóttir og er búrstýran í Búrinu á Grandanum en það er ljúfmetisverslun á heimsmælikvarða með dásamlega osta frá öllum heimsins hornum og allt sem þarf til að slá upp skemmtilegri stemmningu.
Borðið hjá okkur blómum skreytt hreinlega svignaði undan kræsingunum og sólin dansaði fyrir okkur langt fram á kvöld, bátarnir við höfnina voru fánum skreyttir því Sjómannadagurinn var í nánd, gat ekki verið sparilegra😄👏 Túristar að drekka í sig fegurðina kíktu á okkur og uppskáru mikla kátinu enda elskum við athygli!
Fegurðarveisla með ostum og víni!
Ostarnir frá Búrinu eru guðdómlegir og að sjálfsögðu var borið fram vín sem hentaði hverju og einasta smakki, allt leikið af fingrum fram og sérfræðingar i mat og drykk við blómaborðið🌹🌼 þetta var sem kallað er fegurðar veisla, leikur við bragðlauka og augun, umgjörðin töfrum líkust á allan hátt.
Þetta eru svo sannarlega vel vakandi vinkonur og færar í flestan sjó stelpurnar með búrstýruna í fararbroddi.
Eigum við það líka sameiginlegt að elska sjóinn og þetta fallega svæði, held bara að þetta sé uppáhalds staðurinn minn á höfuðborgarsvæðinu, eitthvað svo ævintýralegt og töfrandi fallegt þarna, sólarlagið á sér engan líka þarna, þetta er smitandi hamingjusvæði!
Á Grandanum sér maður geislaflóði eilífðarinnar bregða fyrir, það er flott orka á svæðinu og því alveg gráupplagt að pikknikka á Grandanum.
Dóra elskar að föndra við snittugerð en matur hefur alltaf haft mikil áhrif á hennar líf. Svo mikil að Dóra byrjar flesta morgna á að hugsa um hvað eigi að vera gott í kvöldmatinn. Hún býr á Seltjarnarnesi, á tvær æðislegar stelpur og sætasta golfara í heimi (að ólöstuðum okkar). Dóra lærði til lyfjatæknis árið 2001 en áhugamál hennar snúast um allt sem tengist mat, hreyfingu, dansi og útivist.